Engar harðar tilfinningar
Heimir Björgúlfsson

Heimir Björgúlfsson myndlistarmaður sýnir ný verk í Fantasíu - Vinnustofu Kjarval. Titill sýningarinnar er á ensku; 'No Hard Feelings' sem Heimir hefur valið að þýða sem 'Engar harðar tilfinningar'.
Á sýningunni má sjá hugarheim og hugðarefni Heimis endurspeglast í stórum og litríkum málverkum sem eru fígúratíf og hverfast um dýraríkið, áhuga Heimis á fuglum, heiminum sem við búum í, náttúru- og dýravernd, hinu fáránlega og hinu mannlega. Málefnum eins og útrýmingu dýrastofna og áhrifa mannfólksins á umhverfi sitt. Heimir hefur fengist við klippimyndir, innsetningar og skúlptúra ásamt málverkinu en síðari ár hefur málverkið átt hug hans allan þó að hann noti blandaða tækni í bæði aðferða- og hugmyndafræðilegri nálgun. Eftir að hafa stúderað raftónlist og verið virkur þátttakandi í tilraunakenndri tónlistarsköpun fyrir aldamót, hóf Heimir myndlistarnám í Hollandi árið 1998 og fór að stúdera málverkið út frá klippimyndum og blandaðri tækni, og segir sjálfur að myndlistin hafi hreinlega tekið yfir.
"Mig langaði að verða fuglafræðingur þegar ég var yngri og það má í raun segja að myndlistarsköpunin hafi þróast og mótast út frá þeim áhuga. Eftir að ég flutti til Amsterdam fór ég að vera meðvitaður um íslenskar rætur mínar, um bakgrunn minn og á hvaða hátt umhverfið sem ég kom úr var andstæða við ný heimkynni þar sem umhverfið er að mestu manngert. Uppruni minn og nærumhverfi hverju sinni hefur enn mikil áhrif á það sem ég geri og skapa. Ég hef verið búsettur í Los Angeles síðustu tvo áratugi og hér eru öfgarnar enn meiri og fleiri spurningar vakna".
Andstæðurnar í umhverfinu og mannlegri hegðun eru innblástur og í verkunum má sjá þessar andstæður endurspeglast í dýrategundum úr ólíkum áttum; ísbirnir, endur, geirfugl, fiðrildi, rostungur og uglur til að mynda í grípandi og sterkum litum sem vísa í heim tölvutækninnar og litakort listamannsins, allt frá skærgulum, yfir í bleikt og túrkís. Ólíkir pólar í litavali sem og efnistökum, sem togast á, kalla fram spurningar og skapa samtal. Mannleg hegðun getur verið mjög gefandi og uppbyggjandi en hún getur líka verið eyðileggjandi og tortímandi.
"Ég sé þetta ekki fyrir mér sem málverk til að byrja með..."
Aðferðin sem Heimir notar við gerð verkanna er áhugaverð og ekki í anda klassískrar málarahefðar. Hann tekur mikið af ljósmyndum, les mikið, ferðast, hlustar á tónlist, fréttir og málefni líðandi stundar og allt
þetta hefur áhrif á listsköpun Heimis og hvað að lokum endar á striganum. Tíðarandinn og hugðarefnin, samband manns og náttúru endurspeglast í fígúratífum og litríkum málverkum sem fanga athygli áhorfandans. Hann skissar verkin upp í tölvu og raðar ólíkum þáttum saman og myndar heild, samtal og lokaniðurstöðu sem endar að lokum í akrýl á striga, unnið með pensli í anda fyrri alda þó svo að hugmyndin sé samtímaleg. Heimir sér verkin ekki í upphafi sem málverk þó svo að lokaniðurstaðan sé málverk og frumvinnan er unnin sem klippimyndir þar sem hann pússlar saman hugmyndum sínum og hugrenningum.
"Ef ég get með verkum mínum vakið fólk til umhugsunar um heiminn sem við búum í og hvernig við erum gagnvart honum þá hef ég náð takmarki mínu".
Heimir hefur áhuga á að vekja okkur til umhugsunar, að varpa fram því sem hann er að hugsa um og kalla fram spurningar hjá áhorfendum, um samspil manna, dýra og náttúru og hvernig ágangur mannsins hefur áhrif á loftslagsmál og útrýmingu landsvæða og dýrastofna til að mynda. Hið mannlega eðli og tíðarandi nútíma samfélaga, öfgar og aðgerðaleysi tala saman í stórum verkum sem fela, að hans von, í sér ýmsar spurningar sem við sem búum í samfélagi nútímans þurfum að vera meðvituð um og spyrja okkur að í dagsins önn.
Ástríður Magnúsdóttir.
Heimir Björgúlfsson er fæddur í Reykjavík árið 1975 og býr og starfar í Los Angeles í Bandaríkjunum. Hann lauk BA-gráðu við Gerrit Rietveld list akademíuna í Amsterdam árið 2001 og í framhaldinu hlaut hann árið 2003 mastersgráðu í myndlist við Sandberg Instituut, einnig í Amsterdam. Áður nam hann hljóðfræði við Konunglega tónlistarháskólann í Haag í Hollandi og útskrifaðist þaðan 1998. Verk Heimis hafa verið sýnd á fjölmörgum einka- og samsýningum víða í Evrópu og Bandaríkjunum og eru í opinberum safneignum og einkasöfnum víða um heim, má þar nefna; The Museum of Fine Art í Houston Texas, Columbus Museum of Art í The Pizzuti í Columbus Ohio, 21C Museum í Louisville Kentucky, Listasafn Reykjavíkur og Listasafnið á Akureyri. Árið 2006 var Heimir tilnefndur til De Volkskrant myndlistarverðlaunanna í Amsterdam í Hollandi, 2012 var hann tilnefndur til Carnegie myndlistarverðlaunanna í Stokkhólmi í Svíþjóð og nýverið hlaut hann Homiens myndlistarverðlaunin í New York í Bandaríkjunum.
Listamaður: Heimir Björgúlfsson
Sýningarstjóri: Ástríður Magnúsdóttir