Fornar slóðir

Petra Hjartardóttir, Karen Ösp Pálsdóttir

Listakonurnar Karen Ösp Pálsdóttir og Petra Hjartardóttir hafa fylgst að frá barnsaldri en Fornar slóðir er fyrsta sýning þeirra saman.

Þegar þær voru að ræða hver útgangspunktur sýningarinnar ætti að vera, þá leituðu þær að jarðtengingu. Þær höfðu búið í sitthvoru landinu í nokkur ár en nú eru þær báðar komnar aftur á sínar æskuslóðir í Reykjavík. Þar sem þær eitt sinn blönduðu saman nornaseiði og drullumall úti í garði og tóku svo sín fyrstu skref í myndlistinni, hlið við hlið, á námskeiðum í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Nú eru þær aftur farnar að hræra eitthvað saman, en hvorar á sinn hátt, túlkað í gegnum ólíka miðla.

Þær deila áhuga á litum og litafræði og þróuðu sameiginlega litapallettu sem er frekar jarðbundin, með grænum, gulbrúnum, fjólubláum og appelsínugulum tónum. Þær eiga það líka sameiginlegt að einblína á lítil smáatriði eða hluti í nærumhverfinu sem væri auðvelt að líta framhjá. Þessi tilhneiging ratar inn í listsköpun þeirra beggja.

Petra vinnur með silfursmíði, útsaum og annað hefðbundið handverk. Hún finnur innblástur úr gömlum bókum, blöðum, fornminjum og minningum. Það er þó mikilvægt að verkin komi ekki fram sem draugar eða uppvakningar heldur spretti upp, fersk og ung, úr þessum morkna jarðvegi.

Karen hefur komið upp vinnustofu á æskuheimili sínu þar sem hún er umkringd gömlum hlutum þar sem hún nýtur þess að blása í þá nýju lífi í gegnum málverk sem einblína á smáatriði eins og mynstur sem endurvekja æskuminningar. Karen málar olíumálverk en hefur einnig verið að fikra sig áfram með því að hanna þrívíddarmódel og gera út frá þeim skúlptúra sem eiga í samtali við málverkin.

Petra og Karen vinna verkin á sýningunni í sitthvoru lagi en kveikjan að verkunum er oft hin sama og vináttan er þeim hugleikin. Þær eru undir miklum áhrifum frá hvor annarri, enda mótaðar úr sama leirnum.

Karen Ösp Pálsdóttir (f.1992) hlaut Bachelors of Fine Arts gráðu frá The Maryland Institute College of Art (MICA) í Baltimore árið 2013 en hefur undanfarin ár búið og starfað í New York. Karen hefur sýnt í samsýningum í New York, Baltimore, Washington DC, London, Barcelona, Reykjavík, Annecy, Norwich, Boston, Portland og París. Hún hélt sína fyrstu einkasýningu í 1300 Gallerí árið 2024 en mun Halda sína aðra einkasýningu í Reykjavík í Maí. Einnig hafa málverk Karenar verið birt í ótal bókum og tímaritum meðal annars New American Paintings, Create! Magazine, Tibia Magazine, SFMOMA, Hyperallergic og El País.

Petra Hjartardóttir (f.1992) útskrifaðist með MFA gráðu frá skúlptúrdeild Yale School of Art árið 2019, BFA gráðu í myndlist frá Hunter College í New York árið 2016 og úr fornámi Myndlistarskólans í Reykjavík árið 2012. Hún hefur sýnt á samsýningum í Bandaríkjunun, á Ítalíu; og í Kling og Bang, Listasafni Reykjavíkur og Kannski á Íslandi. Hún hélt sína fyrstu einkasýningu í Harbinger árið 2021. Sumarið 2019 sótti hún gestavinnustofu hjá Fondazione Antonio Ratti á Ítalíu. Árið 2023 sótti hún tvær tveggja mánaða langar gestavinnustofur: AiR Sandnes í Noregi og Kjarvalsstofu í París. Petra hefur hlotið margar viðurkenningar og styrki í námi sínu og starfi sem myndlistarmaður, þ.á.m. úthlutun úr Myndlistarsjóði, dvalarsjóði Muggs og ferðasjóði Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar.

Listamenn: Petra Hjartardóttir, Karen Ösp Pálsdóttir

Dagsetning:

01.02.2025 – 27.02.2025

Staðsetning:

SÍM Gallery

Hafnarstræti 16, 101 Reykjavík, Iceland

Merki:

MiðborginSýning

Opnunartímar:

Mán – sun: 12:00 – 16:00

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5