Handleikið - Ragnhildur Jóhanns

Ragnhildur Jóhannsdóttir

Handleikið - Ragnhildur Jóhanns

Málverkasýningin Handleikið eftir Ragnhildi Jóhanns opnar í Sím gallery fimmtudaginn 6. mars á afmælisdegi listakonunnar. Þar gefur að líta 18 ný málverk sem Ragnhildur hefur unnið að síðustu 15 mánuði.

Málverkaseríuna Handleikið má kalla klassískt kyrralíf – hefðbundið uppstillt viðfang, vandlega útfært og með djúpri virðingu fyrir hefðinni en við nánari athugun afhjúpast óvænt hreyfing inn í formfast kerfið. Mannleg snerting, þar sem hendur birtast og umbreyta hinu sígilda myndformi. Kyrralífið rofið.

Kyrralífsmyndir hafa í gegnum aldirnar verið táknmynd fegurðar, upphafning hversdagslegra hluta og hinnar óhagganlegu reglu listarinnar. Í verkum Ragnhildar er kyrrðin ekki algild, ekki einungis spegilmynd hinnar fullkomnu reglu, heldur vettvangur mannlegrar íhlutunar – handa, sem spretta fram úr tóminu og káfa, snerta og breyta.

Höndin, þessi óvænti innrásaraðili í kyrrðina, verður sögn um líf og óreiðu. Því fastar sem verk Ragnhildar halda í hina klassísku fagurfræði og hefð, því skýrari verður truflunin og myndun spennuþrunginna andstæðna – milli hinnar skipulögðu fegurðar og mannlegrar óreiðu – sem blæs lífi í atburðarás verkanna. Áhorfandinn er dreginn inn í heim þar sem snerting skapar tengingu, þar sem höndin bætir við nýrri frásögn í kyrralífsmyndina, býður okkur að taka þátt, að finna mennskuna í miðri kyrrðinni. Hún vekur okkur til umhugsunar um hvers vegna við endurtökum hið kunnuglega, hvers vegna við snertum, hvers vegna við þráum tengingu – og hvers vegna, í raun, það er aldrei óþarfi að hugsa eitthvað upp á nýtt.

Ragnhildur Jóhanns (f. 1977) myndlistarkona býr og starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010 og hefur síðan þá tekið þátt í fjölda einka- og samsýninga, bæði á Íslandi og erlendis. Ragnhildur vinnur með fjölbreytta miðla í listsköpun sinni, þar á meðal olíumálverk, teikningar, klippimyndir, prent og skúlptúra. Auk þess hefur hún unnið markvisst með bókverkagerð og gefið út fjölda bókverka.

Listamaður: Ragnhildur Jóhannsdóttir

Dagsetning:

06.03.2025 – 03.04.2025

Staðsetning:

SÍM Gallery

Hafnarstræti 16, 101 Reykjavík, Iceland

Merki:

MiðborginSýning

Opnunartímar:

Mán – sun: 12:00 – 16:00

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5