Heilaþoka
Guðlaug B. Björnsdóttir, Bjartur H. Tryggvason
Heilaþoku þekkja margir af eigin raun en orsök og upplifun getur verið ólík á milli fólks. Líkt og hefðbundin þoka getur heilaþokan verið létt og sæmilega auðvelt að komast í gegnum hana, eða hún getur verið þykk og mikil og virðist seint ætla að létta til. Hún er óþægileg, hægir á okkur eða birgir okkur jafnvel alveg sýn.
Mæðginin Lauga og Bjartur tileinka þessa sýningu heilaþoku og nálgast viðfangsefnið hvort eftir eigin reynslu. Lauga tengir sína heilaþoku við mismunandi æviskeið og uppruna, m.a. Barneignir og brjóstagjöf (brjóstaþoku), áföll, steitu, álag, kulnun og blessaða breytingaskeiðið.
Bjartur(15 ára)þekkir heilaþoku vel þrátt fyrir ungan aldur sem skynsegin og kynsegin einstaklingur, út frá einhverfu, skynáreiti, ADHD og aðrar
lífsins áskoranir.
Myndir Laugu eru unnar á akrýl á striga og sýna myndir af konum umluknar bleikri heilaþoku. Bjartur vinnur sínar myndir í Procreate á iPad Pro og gefa þær innsýn í hans hugarheim.
Þetta er fyrsta sýning þeirra beggja og eru þau mjög spennt fyrir þessu samstarfi. Þau eru sjálflærð og hafa bæði haft sjónlist í hjartanu frá unga aldri og farið á ýmis styttri námskeið. Lauga hafði ekki sérstaklega mikla trú á eigin getu og fylgdi því ekki köllun listagyðjunnar þar til Bjartur með hans eljusemi og leik við listagyðjuna varð móðurinni innblástur. Hann er hennar fyrirmynd. Þau eru því nú að hefja sinn listaferil samtímis og blómstra hvort á sinn hátt. Bjartur stefnir að auki á leiklistarferil og er nú að hefja 3. ár við nám í Leiklistarskóla Borgarleikhússins
Sýningaropnun verður fimmtudaginn 15. ágúst frá 18:00-20:00 og allir velkomnir!
Aðrir opnunartímar:
Föstudagur 16. ágúst 13:00 - 18:00
Laugardagur 17. ágúst 12:00 - 17:00
Sunnudagur 18. ágúst 14:00 - 17:00
Viðburðurinn er styrktur af Menningar og ferðamálanefnd Hafnarfjarðarbæjar.
Listamenn: Guðlaug B. Björnsdóttir, Bjartur H. Tryggvason
Sýningarstjóri: Elvar Gunnarsson