HOLUR HIMINN HULIÐ HAF
Anna Guðjónsdóttir

Á sýningunni HOLUR HIMINN HULIÐ HAF hefur Anna gert ný verk fyrir Kling & Bang.
Sýningarrýmið er virkjað, verður hluti af heildarverkinu og notar hún það sem ósýnilegan blindramma. Verk sýningarinnar eru notuð í myndbygginguna og gera Kling & Bang að einstakri heild og sérstökum stað.
Fyrir Önnu er þetta staður uppruna. Allir krókar og kimar rýmisins eru virkjaðir, gólfið verður að teikningu, gluggar og veggir að málverkum. Þetta tvinnar hún saman við málverk og teikningar unnar á undanförnum árum.
„Sýningarskápurinn“ er hugtak, sem Anna hefur notað í sinni myndlist í gegnum tíðina. Bæði, sem hjálpartæki til að skilja betur samhengi náttúru og menningar og sem tákn fyrir þekkingu og sögu. Þegar við göngum inn í rýmið erum við að ganga inn í einhverskonar sýningarskáp en einnig að ganga inn í málverk.
Myndlist Önnu Guðjónsdóttur á rætur að rekja til málverksins og náttúrunnar. Hún ólst upp að hluta til á Þingvöllum, sem kveikti með henni brennandi áhuga á náttúrunni og hafði víðtæk áhrif á hennar náttúrusýn. Á ferðalögum á fjarlæga staði, líkt og Svalbarða eða annarra einstakra staða skoðaði hún náttúruna og náttúrugripasöfn og þróaði með sér leiðir til að fræðast og rannsaka hefðir landslagsmálverksins.
Með verkum sínum leitast Anna við að svara því, hvernig hægt sé að skilgreina sig, sem hluta af náttúrunni í dag, og hvaða möguleikar eru til staðar til að vera meðvitaðri um eigin sögu í tengslum við alheimssöguna.
Árið 2022 hóf Anna samvinnu við hóp alþjóðlegra vísindamanna þar sem rannsóknarefnið var „eldfjöll, loftslag og saga“. Úr þessari samvinnu hafa komið textar, sem birtir voru á alþjóðavettvangi og tvær myndlistarsýningar, einkasýningin „Curiosity Unbound“ í Bielefeld, Þýskalandi, 2023 og samsýningin „Magma Rising“ í Heong Gallery, Cambridge University, Bretlandi, 2025. Þar gerði Anna 5 x 7 metra veggverk.
Anna Guðjónsdóttir fæddist í Reykjavík og ólst upp í Vogahverfinu og á Þingvöllum. Hún var tvö ár í Myndlista- og handíðaskólanum en þaðan lá leiðin til Hamborgar þar sem hún lauk námi við Listaháskólann á níunda áratugnum.
Anna hefur hlotið verðlaun fyrir verk sín bæði hérlendis og erlendis, m.a. Edwin Scharff verðlaunin, Hamborg, 2007 og listaverðlaun Edstrandska Stiftelsen í Svíþjóð, 1999.
Hún hefur tekið þátt í alþjóðlegum sýningum eins og í Palais de Tokyo, Paris 1998 og í safni Falckenberg í Deichtorhallen, Hamborg 2025.
Sýning Önnu „pars pro toto“ í Hafnarhúsinu 2019 var tilnefnd til Íslensku Myndlistaverðlaunanna.
Anna starfar að mestu í Hamborg og Glückstadt en er alltaf með annan fótinn á Íslandi.
Listamaður: Anna Guðjónsdóttir