Ný aðföng: gjafir, endurgerðir og staðgenglar
Samsýning / Group Exhibition

Á sýningunni Ný aðföng: gjafir, endurgerðir og staðgenglar gefur að líta sneiðmynd af því sem bæst hefur í safneign Nýlistasafnsins frá árinu 2020. Verkavalinu er ætlað að sýna ólíkar ástæður þess að verk rata til Nýló, skúlptúr innsetning, endurgerð verka sem hafa skemmst, staðgenglar stolinna verka, viðbætur við verk sem þegar eru í safneign og tillögur að verkum sem aldrei raungerðust. Markmiðið með sýningunni er að varpa ljósi á einstaka nálgun Nýló í rekstri og söfnun lifandi safneignar.
Nýló er bæði viðurkennt safn og listamannarekið rými þar sem varðveisla og listrænar tilraunir mætast. Safneignin byggist eingöngu á gjöfum sem eru mótteknar og samþykktar af kjörinni stjórn starfandi listamanna. Þessi aðferð til söfnunar hefur orðið til þess að Nýló á umfangsmikið safn verka sem endurspegla listasöguna út frá forsendum listamannarekins frumkvæðis og spannar allt frá fyrstu verkum listamanna, skrásetningu og skjöl um hverfula gjörninga og þekkt verk úr listasögunni. Í gegnum árin hefur safnið orðið að spegli fyrir lifandi listasenu þar sem hún geymir öll svið listrænnar tjáningar. Með því að sýna breitt val af nýjum aðföngum er spurt áleitna spurninga um um söfnun og varðveislu samtímalistar.
Listamenn: Bryndís Snæbjörnsdóttir & Mark Wilson, Douwe Jan Bakker, Fiona Banner, Graham Wiebe, Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar, Helgi Þorgils Friðjónsson, Hulda Rós Guðnadóttir, Ívar Glói, Ívar Valgarðs, Kristín Karólína Helgadóttir & Ófeigur Sigurðsson, Joseph Marzolla, Rúna Þorkelsdóttir, Sidsel Winther, Unnar Örn, Sóley Frostadóttir & Joe Keys.
Ljósmynd: Sadie Cook
Listamaður: Samsýning / Group Exhibition