Óendanleg tilviljun
Björk Viggósdóttir
Tilviljun er þegar tveir hlutir renna saman sem áttu ekki að vera á sama stað, þegar lína er dregin á milli punkta sem virðast ekki eiga neitt sameiginlegt. Á meðan eitt gerist þá gerist eitthvað annað og úr því verður merking sem hleypur þó undan eins og þegar við reynum að lýsa veröldinni. Hér hangir hrísgrjónapappír og loftið leikur um hann og gefur efniviðnum rödd þegar snarpar blekstrokur listakonunnar leiftra á hálf gagnsæjum pappírnum. Sýningarsalurinn fer með okkur í gönguferð en hvert spor er óvissuferð. Líkaminn er ílát sem tekur inn hljóð. Endurtekningasamar hljóðmyndir varða leiðina hvert sem ferðinni er heitið í heimi sem er ýmist brotakenndur eða eins og lítið hnattlíkan sem við virðumst hafa fulla stjórn yfir Trommuslátturinn verður hraðari, strokurnar leiftra á pappírnum og beinhvítt postulínið er brothættara en við höldum. Þegar við blikkum augum mætir okkur dularfullt myndband varpað á hvítan flöt. Veröldin málar sig sjálf án þess að við vitum úr hvaða málningu. Táknmyndir umpólast.Björk Viggósdóttir er listakona sem gerir rýmið að leiksviði skynjunnar. Blái og hvíti liturinn eru leiðarstef rétt eins og trommutakturinn og hljóðmyndin sem opnar fyrir okkur spádómskúlu. Við sjáum ekki bara inn í hana, við erum inni í henni, við horfum ekki á óendanleikann, við erum óendanleikinn. Texti eftir Vilborgu Bjarkadóttur.
Listamaður: Björk Viggósdóttir