Brúna tímabilið
Ragnar Kjartansson

Í tveimur sýningarrýmum í i8 Granda sýnir listamaðurinn ný verk í bland við eldri. Sýningin er sjötta einkasýning Ragnars í i8.
'Brúna tímabilið' er árslöng sýning þar sem fikt og tilraunamennska ráða ríkjum. i8 Grandi er einungis spölkorn frá vinnustofu Ragnars og mun hann því nýta salina sem afkima vinnustofunnar, tilraunaeldhúskrók. Verkum verður skipt út nokkuð oft og mun sýningin því verða síbreytileg þetta ár sem hún stendur. Það er engin hugmyndafræði á bakvið Brúna tímabilið. Dótakassi fyrir nýtt dót og gamalt dót.
Að þessu sinni eru sýnd tvö verk eftir Ragnar sem segja má að séu systraverk. Annað þeirra er nú sýnt í fyrsta sinn: 'Schmerz' (2022) og 'Hvad har vi dog gjort for at ha’ det så godt' (2023) er sýnt í fyrsta sinn á Íslandi.
Í báðum verkum þráspyr Ragnar ásamt Sögu Garðarsdóttir leikara „Hvað höfum við gert til að eiga þetta skilið?“ svo klukkutímum skiptir en með gjörólíkum tón og í gerólíkum aðstæðum. Þegar þú gengur inn í sýningarýmið mætir þér Schmerz (2022) eða Sársauki. Í verkinu flytur Ragnar, ásamt Sögu og Kristínu Önnu Valtýsdóttur tónlistarmanni, eitt síendurtekið dramatískt augnablik í ævintýralegum evrópskum kofa sem komið hefur verið fyrir á sólbaðsströnd í Zürichborg og er eins og sprottinn út úr Bruegel málverki. Þau lýsa eftirsjánni og volæðinu á einu þrungnasta tungumáli sem til er, þýsku. Setningu karlmannsins „Was hab ich gemacht?“ eða „Hvað hef ég gert?“ svarar konan með „Nein!“ eða „Nei!“. Þessari endalausu sorgaróperu um absúrd þjáningu og angist er stillt upp einn fagran sumardag í þessari óaðfinnanlegu og vellauðugu borg .
Í maí 2023 voru Ragnar og Saga komin í fullkomlega hannaða skandinavískra stofu með útsýni yfir Eyrarsundið þar sem þau tóku upp í ellefu tíma gjörning fyrir kvikmyndavélina. Í myndbandinu sjáum við þau smekklega klædd, talandi dönsku sín á milli. Frá plötuspilaranum hljómar lagið „Hver dag er en sjælden gave“ („Sérhver dagur er sjaldgæf gjöf“, 1939) í flutningi dönsk-íslensku söngkonunnar Elsu Sigfúss. Þau endurtaka í sífellu spurninguna „Hvad har vi dog gjort for at ha’ det så godt?“ eða „Hvað höfum við gert til að verðskulda þetta?“. Stundum segja þau bara „Hvad har vi dog gjort“, „Hvað höfum við gert“. „Hvad har vi dog gjort for at ha’ det så godt?“ er orðatiltæki, sem Danir nota til að leggja áherslu á heppni sína, forréttindi og þakklæti. Síendurtekin spurningin í þessum aðstæðum dregur fram einhvers konar ljúft miskunnarleysi. Fullkomið augnablik í heimi dauða og þjáningar.
Ragnar fæddist inn í leikhúsfjölskyldu og notar gjarnan leikræn tilþrif og sviðsetningu í verkum sínum. Hann flakkar auðveldlega á milli ólíkra listforma, gerir tónlistina að höggmynd, málverkið að gjörningi og kvikmyndina að uppstillingu. Rauði þráðurinn er alltaf gaumgæfileg athugun á mannlegu eðli, marglaga tilfinningar, félagslegar víddir og hinir mótsagnakenndu þættir sem hversdagslíf okkar allra samanstendur af.
Sýningar í i8 Granda standa mun lengur en vaninn er hjá söfnum og galleríum og eru helgaðar hugmyndum um tíma og rúm. Hinn langi sýningartími skapar rúm fyrir listamennina til að íhuga hvernig tíminn mótar verk þeirra og flæðið hvetur áhorfendur til að heimsækja breytilegar innsetningarnar aftur og aftur. 'Brúna tímabilið' er fjórða heilsárssýningin í i8 Granda og kemur á eftir sýningum Andreas Eriksson árið 2024, B. Ingrid Olson árið 2023 og Alicja Kwade árið 2022.
Listamaður: Ragnar Kjartansson