Brúna tímabilið
Ragnar Kjartansson
Í tveimur sýningarrýmum í i8 Granda sýnir listamaðurinn ný verk í bland við eldri. Sýningin er sjötta einkasýning Ragnars í i8.
'Brúna tímabilið' hefst á frumsýningu á verkinu “A Boy and a Girl and a Bush and a Bird” (2025). Verkið vann Ragnar í samvinnu við Davíð Þór Jónsson og Anne Carson á bananaplantekru Garðyrkjuskólans á Reykjum. 'Brúna tímabilið' er árslöng sýning þar sem fikt og tilraunamennska ráða ríkjum. i8 Grandi er einungis spölkorn frá vinnustofu Ragnars og mun hann því nýta salina sem afkima vinnustofunnar, tilraunaeldhúskrók. Verkum verður skipt út nokkuð oft og mun sýningin því verða síbreytileg þetta ár sem hún stendur. Það er engin hugmyndafræði á bakvið Brúna tímabilið. Dótakassi fyrir nýtt dót og gamalt dót.
Ragnar fæddist inn í leikhúsfjölskyldu og notar gjarnan leikræn tilþrif og sviðsetningu í verkum sínum. Hann flakkar auðveldlega á milli ólíkra listforma, gerir tónlistina að höggmynd, málverkið að gjörningi og kvikmyndina að uppstillingu. Rauði þráðurinn er alltaf gaumgæfileg athugun á mannlegu eðli, marglaga tilfinningar, félagslegar víddir og hinir mótsagnakenndu þættir sem hversdagslíf okkar allra samanstendur af.
Sýningar í i8 Granda standa mun lengur en vaninn er hjá söfnum og galleríum og eru helgaðar hugmyndum um tíma og rúm. Hinn langi sýningartími skapar rúm fyrir listamennina til að íhuga hvernig tíminn mótar verk þeirra og flæðið hvetur áhorfendur til að heimsækja breytilegar innsetningarnar aftur og aftur. 'Brúna tímabilið' er fjórða heilsárssýningin í i8 Granda og kemur á eftir sýningum Andreas Eriksson árið 2024, B. Ingrid Olson árið 2023 og Alicja Kwade árið 2022.
Listamaður: Ragnar Kjartansson