Tæri

Erla S. Haraldsdóttir

Tæri

Í Íslenskri orðsifjabók  er merking orðsins tæri sögð ‘tengsl, félagsskapur’, komast í tæri við ‘kynnast.’ 
Ef til vill merki tæri upphaflega ‘augsýn, kynning’ og eigi skylt við lýsingarorðið tær 
‘tær, óblandaður’ og er ef til vill gamalt nafngert hvorugkyn af því (< *tairia-).

Röð málverka, röð teikninga og veggmynd eru uppistaðan í nýjustu sýningu listakonunnar Erlu S. Haraldsdóttur í Neskirkju. Myndirnar snúast allar um þemað kynni og eru afleiðing af tengingu listakonunnar við langalangömmu sína og mótandi draum sem hana dreymdi sem barn, þar sem hún hitti huldukonu. Erla hreifst svo af þessari frásögn af fundi ungu konunnar og yfirnáttúrulegu konunnar, sem kemur víða fyrir í íslenskri þjóðtrú, að hún vann röð verka sem byggja á henni, með titlinum „Draumur móður minnar“, sem sýnd voru í Norrtälje Konsthall árið 2022, Gallery Gudmundsdottir árið 2023, og í Listasafni Árnesinga 2024. 

Í sýningunni Tæri vinnur listakonan áfram með hugmyndina um kynni, nú í víðara samhengi. Hún skoðar listasögu og goðsagnir heimsins og sýnir málverk af boðun Maríu, Krishna, goðsagnaveru úr hellamálverki Khoisan-fólksins í Suður-Afríku, bænabeiðu, og ref. Þessar gjörólíku verur eiga það sameiginlegt að geta allar verið áþreifanleg birting andans eða sjálfsins. Í japanskri og kínverskri þjóðtrú geta refir breytt sér í yfirnáttúrulegar konur sem draga unga karlmenn á tálar. Engill boðunar Maríu kemur til hennar og segir henni að hún muni fæða Guðssoninn. Khoisan-fólkið stundar leiðsludans þar sem töfralæknar herma eftir og breytast í dýr sem eru nauðsynleg fyrir afkomu ættbálksins. 

Auk þess að komast í tæri við persónugervingu sjálfsins, eða andans, vísar Erla S. Haraldsdóttir í þá tækni sem nú á tímum auðveldar og flækir mannleg samskipti: símann og snjallsímann. Hún slær eign sinni á meistara popplistar-eignarnámsins, Andy Warhol, og teikningu hans af gamaldags síma frá því upp úr 1950. Hún teiknar líka skjáinn á nýlegri gerð Apple-snjallsíma. Í kringum símann er geislabaugur, skreyttur með gull- og silfurþynnum, þetta er uppástunga, bending á tilbeiðslu nútímatækni, eða samband mannsins við tæknina, hvort sem það einkennist af háleitri lotningu, tæknilegri bjartsýni, tortryggni og vantrú, eða ófúsri ánetjun. 

Annar fundur í þessari myndaröð er á milli mannfólks og sólmyrkva, byggt á nýlegum ljósmyndum af 90% sólmyrkva sem varð í Norður-Ameríku 8. apríl 2024. Verkið er tilraun til að endurheimta hrifninguna sem fólk upplifði við sólmyrkvann, sem einnig tengist djúpstæðum ótta og óvissu sem skýtur upp kollinum við þennan sjaldgæfa, en reglulega, himneska viðburð. Hvað gerist þegar þverganga tunglsins truflar reglulegt mynstur sólarupprásar og sólseturs? Þegar náttúrulegt fylgitungl jarðarinnar fer í veg fyrir lífgjafa okkar, sólarljósið? Þessi augnablikstruflun er uppspretta bæði goðsagna og vísindalegra uppgötvana. 

Listakonan notar málverkið og teikningar til að rannsaka þemu og gera tilraunir með sögu- og menningarlegar minjar. Fyrir Erlu eru málun og teikning ferli íhugunar og hugleiðslu og þótt hún nýti sér aðfengnar myndir renna þær saman við höfundarverk hennar. Hver fyrir sig birtast myndirnar eins og senur í samklippi eða draumi; draumar og táknin í þeim vekja líka áhuga listakonunnar í síauknum mæli. Landslagið sem lifnar innra með okkur á meðan við sofum á sér aðeins vísindalegar skýringar að hluta til; stóru spurningunum, hvernig og af hverju varðandi drauma, er ósvarað. Það á einnig við um áhrif tilviljanakenndra funda í svefni. Slík kynni þykja merkileg víða um heim, sem sést á ýmsum trúarlegum hefðum, og svefn, nauðsynlegur hluti samvægis mannsins, er einnig sameiginlegur með öllu fólki. 

Listakonan leggur sig fram um að koma almenningi í tæri við verk sín til að blása fólki andagift í brjóst, efla forvitni og hvetja til íhugunar. Við sýningu verkanna kvikna samræður þar sem nýjar hugmyndir og frekari tengsl verða til.

 

Dr. Craniv Boyd

Listamaður: Erla S. Haraldsdóttir

Dagsetning:

23.06.2024 – 25.08.2024

Staðsetning:

Neskirkja

Hagatorg, 107 Reykjavík, Iceland

Merki:

HöfuðborgarsvæðiðSýningEnginn aðgangseyrir

Opnunartímar:

Mánudagur09:00 - 16:00
Þriðjudagur09:00 - 16:00
Miðvikudagur09:00 - 16:00
Fimmtudagur09:00 - 16:00
Föstudagur09:00 - 16:00
LaugardagurLokað
SunnudagurLokað

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Perpetual Motion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Um okkur