Þráin til vaxtar
Joris Rademaker
Á sýningunni "Þráin til vaxtar” nálgast Joris Rademaker hugtökin vöxtur, hreyfing og tími út frá mismunandi sjónarhornum. Hugmynd að sýningunni kviknaði eftir heimsókn í Hannesarholt þegar Joris skoðaði húsið vel og spjallaði við staðarhaldarann. Háaloftið með sína tréveggi byggða úr timburafgöngum hússins varð innblástur að sýningu. Veggirnir endurspegla viðhorf Hannesar og virðingu hans fyrir efninu sjálfu, sparsemi og endurnýtingu.Tréveggurinn er partur af innsetningu á sýningunni sem ber þá titilinn Fjársjóður. Í hinum sýningarrýmunum verða pennateikningar, hvass málverk og þrívíð verk unnin úr lífrænum efnum.
Með því að stúdera náttúruna fær maðurinn dýpri skilning á henni, þanng fær maðurinn meiri virðingu fyrir umhverfinu, náttúrunni og sjálfum mannslíkamanum. Í nútímanum þegar tæknivæðingin tekur yfir er mikil áhætta á að það verði rof á milli náttúrunnar og mannsins.Síðustu áratugi hefur Joris gert tilraunir og unnið listaverk úr lífrænum efnum sem hann safnar í gönguferðum sínum, svo sem trjágreinum, hvönn og fjöðrum. Að safna, þurrka og finna sýningaform þar sem efnið sjálft fær að blómstra er hans nálgun. Einnig notar hann oft önnur lífræn efni sem tengjast matarvenjum eins og spaghettí, kartöflur, hnetur, vínberjagreinar og kókoshnetur.
Í gegnum árin verður hann stöðugt meira meðvitaður um þessa djúpu og sterku þrá í öllu sem lifir, til þess að vaxa. Í listinni reynir hann að gera það sýnilegt. Verkin eru oftast táknræn og túlka og tjá tilfinningar, samband og tengsl manns og náttúru á persónulegan hátt. Óspillt náttúra Íslands gefur Joris sífellt innblástur.
Joris er hollenskur myndlistamaður búsettur og starfandi á Íslandi síðan 1991. Hann hefur haldið fjölmargar einka- og samsýningar bæði á Íslandi og erlendis. Hann hefur t.d. sýnt einkasýningar í Nýlistasafninu, Safnasafninu á Svalbarðsströnd og í Listasafninu á Akureyri og í Listasafni Reykjavíkur (samsýningin Stór Ísland).
Listamaður: Joris Rademaker