Viðurkenning fyrir útgáfu 2025: FÖR
Viðurkenningu myndlistarráðs fyrir útgáfu hlýtur ljósmyndabókin FÖR eftir Agnieszku Sosnowska. Bókin er einstakt verk þar sem náttúra, samfélag og persónuleg saga mætast í áhrifaríkri heild.

Viðurkenningu myndlistarráðs fyrir útgáfu hlýtur ljósmyndabókin FÖR eftir Agnieszku Sosnowska. Bókin er einstakt verk þar sem náttúra, samfélag og persónuleg saga mætast í áhrifaríkri heild.
Agnieszka Sosnowska er fædd í Póllandi en ólst upp í Boston í Bandaríkjunum. Þá lauk hún BFA-námi í ljósmyndun frá Massachusetts College of Art and Design í Boston. Árið 1995 ferðaðist hún svo fyrst til Íslands og heillaðist strax af náttúrunni, menningunni og lífinu á landsbyggðinni. Skömmu síðar fluttist hún á Austurland, þar sem hún býr nú á bóndabýli ásamt eiginmanni sínum.
Ljósmyndir bókarinnar spanna rúmlega tuttugu ára tímabil en Agnieszka fangar íslenska landslagið og lífið í litlu samfélagi á afar persónulegan hátt, sem og samband hennar við eiginmann sinn, vini og nemendur, í hrjúfum en hrífandi landslagsramma.
Mat dómnefndar er að FÖR sé meira en ljósmyndabók: hún er ljóðræn frásögn um að finna stað í heiminum og tengjast náttúru og samfélagi með innilegum hætti. Myndirnar eru fullar þakklætis og ástar til landsins, fólksins og hversdagsins, þar sem heildarframsetning bókarinnar undirstrikar gæði og fagurfræðilegan styrk verkefnisins. Þetta er bók sem veitir ekki aðeins sjónræna ánægju heldur dýpri skilning á lífi og listsköpun í fásinninu.
Ritstjórar: Agnieszka Sosnowska, Bryan Schutmaat og Matthew Genitempo
Hönnun: Cody Haltom