Ferskir vindar í Arsenale

23.09.2024
Vídeóinnsetning Bouchra Khalili, The Mapping Journey Project, sem gerð var á árabilinu 2008 til 2011 er ákaflega falleg á að líta. Sögurnar sem viðmælendur hennar segja eru engu að síður átaknlegar.

Ef ég þyrfti að nota eitt lýsingarorð til þess að lýsa Feneyjatvíæringnum sem nú stendur yfir, þá hugsa ég að ég myndi velja orðið frískandi. Ekki misskilja mig, verkin eru á tíðum átakanleg enda er helsta viðfangsefni tvíæringsins í ár barátta margra, ólíkra, jaðarsettra hópa. Ég nota orðið frískandi til þess að lýsa upplifun minni af þessum tiltekna tvíæringi í samhengi við fyrri tvíæringa og fyrir því eru nokkrar ástæður.

Útlendingar alls staðar er yfirskrift hátíðarinnar í ár, Stranieri Ovunque upp á ítölsku og Foreigners Everywhere á ensku. Nafnið er fengið úr verki listamannatvíeykis sem kallar sig Claire Fontaine sem endurnýtti frasann eftir að hafa rekist á hann í Tórínó. Þar höfðu orðin verið krotuð á veggi til að mótmæla vaxandi útlendingaandúð á Ítalíu í upphafi aldarinnar. 

Vefnaðarverk Mataaho Collective Takapau frá árinu 2022. Það teygir sig yfir allan fyrsta salinn í Arsenale.

Vefnaðarverk Mataaho Collective Takapau frá árinu 2022. Það teygir sig yfir allan fyrsta salinn í Arsenale.

Á heimasíðu tvíæringsins er haft eftir sýningarstjóranum Adriano Pedrosa að þessi orð hafi fleiri en eina merkingu. „Í fyrsta lagi, hvert sem þú ferð og hvar sem þú ert ert, þá muntu alltaf rekast á útlendinga – þeir/við erum alls staðar. Í öðru lagi, þá skiptir ekki máli hvar þú ert niðurkominn, þú ert alltaf í raun og veru og innst inni útlendingur.“

Orðanotkunin veldur mér hálfgerðum vandræðum. Í mörgum erlendum tungumálum eru til orð sem bjóða upp á þess konar tvíhyggju sem hér er í sviðsljósinu. Hún felst ekki endilega í ólíku ríkisfangi einstaklinga, ekki háð landamærum líkt og orðið „útlendingur“. Orðin eru því viðhöfð um það sem er öðruvísi, framandi. Tilvitnun Pedrosa má því einnig lesa þannig að við séum alltaf í raun og veru og innst inni öðruvísi.  Engu að síður kýs ég að líta svo á að titill sýningarinnar verði best þýddur sem svo, Útlendingar alls staðar. Það er líka í takt við frasann eins og hann birtist okkur á norsku innan um mörg önnur tungumál í útgáfu listaverks Claire Fontaine sem finna má í Arsenale: UTLENDINGER OVERALT. Að mínu mati þýðist frasinn betur yfir á dönsku og sænsku: FREMMEDE OVERALT og FRÄMLINGAR ÖVERALLT. 

Hér væri hægt að halda lengi áfram að ræða tungumál og innbyggða valdastrúktúra þeirra, en látum frekar verkin tala.

Frumbyggjar úr Wadawurrung ættbálknum við byggingu Eureka-varnarveggsins í verki Marlene Gilson, Building the Stockade at Eureka frá árinu 2021.

Frumbyggjar úr Wadawurrung ættbálknum við byggingu Eureka-varnarveggsins í verki Marlene Gilson, Building the Stockade at Eureka frá árinu 2021.

Förum því aftur á byrjunarreit, að orðinu frískandi. Það er erfitt að skýra þessa tilfinningu í stuttu máli. Fyrir utan það að tilheyra jaðarsettum hópum, þá er það helst eitt atriði sem sameinar listafólkið sem á verk á samsýningunni í Arsenale. Það er að stærstur hluti listafólksins sýnir nú á tvíæringnum í fyrsta sinn. Umfjöllunarefnin eru kannski ekki óþekkt þeim sem hafa sótt þessa listahátíð í gegnum árin, en núna fá gestir sögur fólks í ríkari mæli frá fyrstu hendi. Frásögnin hefur tekið við af heimildaefni.

Hér þykir mér nauðsynlegt að staldra við til að koma á framfæri mikilvægum fyrirvara. Þrátt fyrir að hafa dvalið í borginni í tvær vikur þá hef ég ekki enn litið á samsýninguna í Giardini, hinum aðalsýningarstað tvíæringsins. Mig grunar þó að þær alhæfingar sem hér eru látnar falla um tvíæringinn standist nokkurn veginn skoðun. Strax við upphaf samsýningarinnar í Arsenale staldra ég við verk listamannahópsins Mataaho Collective, Takapau (2022). Hópurinn samanstendur af fjórum maórískum listakonum, þeim Bridget Reweti, Erena Baker, Sarah Hudson og Terri Te Tau. Gríðarstórt vefnaðarverk þeirra tekur algjörlega yfir þetta fyrsta rými Arsenale. Efniviðurinn er kunnuglegur, líkist sætisólum úr flugvélum en þegar betur er að gáð eru þetta ólar sem notaðar eru til að skorða vörur í vöruflutningum. Nafn verksins Takapau vísar til fínofinnar mottu sem notuð er við alls kyns athafnir Maóra, einkum við barnsfæðingar. Í skýringartexta segir að hjá Maórum hvíli ákveðinn heilagleiki yfir legi kvenna. Börn í móðurkviði séu þar í ríki guðanna. Við fæðinguna, þar sem Takapau kemur við sögu, færist þau svo yfir í ríki ljóssins. Leikið er með þessa tilfærslu milli myrkurs og ljóss í lýsingu verksins en sterkir ljóskastarar varpa birtu sinni á mann á milli ólanna eftir því sem maður gengur um rýmið. Þá vísar efniviðurinn til þess öryggis sem hvert foreldri vill að barn sitt fæðist inn í. 

Vefnaðarverk Mataaho Collective Takapau frá árinu 2022. Það teygir sig yfir allan fyrsta salinn í Arsenale.

Vefnaðarverk Mataaho Collective Takapau frá árinu 2022. Það teygir sig yfir allan fyrsta salinn í Arsenale.

Vefnaðarverk Mataaho Collective Takapau frá árinu 2022. Það teygir sig yfir allan fyrsta salinn í Arsenale.

Vefnaðarverk Mataaho Collective Takapau frá árinu 2022. Það teygir sig yfir allan fyrsta salinn í Arsenale.

Það að nýta þennan efnivið, sem vísar beint til sívaxandi kerfis vöruflutninga á heimsvísu, í vefnað sem á sér langa hefð vekur auk þess upp ýmsar spurningar. Þetta eru spurningar sem snúa að alþjóðavæðingu, fjöldaframleiðslu, lifnaðarháttum og menningu. Takapau-mottur eru eðli málsins samkvæmt vanalega ofnar úr staðbundnum afurðum úr plönturíkinu. Í verki Mataaho Collective er handbragðið vissulega enn til staðar en náttúrulegu efnin hafa vikið fyrir gerviefnum, pólýester í þessu tilviki. Pólýester er framleitt í massavís, það er ódýrt og það er auðvelt að flytja á milli staða. Hvaða von er fyrir hefðbundið handverk sem notast við náttúruleg efni, þegar svo auðvelt er að skipta því út fyrir fjöldaframleidda hliðstæðu úr gerviefnum? 

Fyrir mér er þetta ekki bara spurning um baráttu náttúrulegra efni gegn gerviefnum og þeim umhverfisáhrifum sem fylgir sigri gerviefnanna. Því þetta snýst líka um menningu – þekkingu og kunnáttu á hefðbundnum og í einhverjum skilningi gamaldags lifnaðarháttum. Með vélvæðingu og fjöldaframleiðslu skapast sú hætta að þekkingin á slíkum aðferðum glatist. Handverkið færist inn fyrir veggi verksmiðjunnar þar sem það er staðlað og með því flest menningin út.

Strax í næsta sal fangar málverkasería athygli mína, sjö málverk eftir áströlsku listakonuna Marlene Gilson. Hún er öldungur í samfélagi Wadawaurrung frumbyggja í Ástralíu. Það sem helst vakti athygli mína var skemmtilegur stíll málverka Gilson sem minna á málverk þeirra Grandma Moses og Þorvaldar Jónssonar. Líflegir myndfletir, fullir af fólki og hinum ýmsu smáatriðum sem þó eru ekki máluð með mjög raunsæislegum hætti.

Frumbyggjar úr Wadawurrung ættbálknum við byggingu Eureka-varnarveggsins í verki Marlene Gilson, Building the Stockade at Eureka frá árinu 2021.

Frumbyggjar úr Wadawurrung ættbálknum við byggingu Eureka-varnarveggsins í verki Marlene Gilson, Building the Stockade at Eureka frá árinu 2021.

Gilson leggur áherslu á að festa sögulega atburði þar sem Wadawarrung fólkið kemur við sögu á striga. Þannig tekst hún á við að rétta hlut frumbyggja Eyjaálfu sem hingað til hafa staðið algjörlega utan listasögunnar. Í einu verka hennar má til dæmis sjá frumbyggja vinna að sögufrægri varnargirðingu í grennd Eureka gullnámunnar sem er á landi Wadawarrung ættbálksins. Þar sló í brýnu milli gullgrafara úr hópi nýlendumanna og hers bresku nýlendustjórnarinnar. Til átaka kom eftir að þeir fyrrnefndu gerðu uppreisn gegn yfirvöldum, að miklu leyti vegna andstöðu við skattlagningu. Átökin sem venjulega eru kennd við varnarvegginn eru af sumum talin hafa getið af sér lýðræði í Ástralíu.

Í verkum sínum fjallar Gilson um sögu ættbálksins og sambúðarinnar við bresku nýlenduherrana. Sú staðreynd að Gilson tilheyrir ættbálknum gerir það að verkum að hann verður ekki viðfang, heldur kemur frásögnin innan frá honum sjálfum. Í skýringartexta við hlið verka Gilson er eftirfarandi haft eftir henni: „Með hverri pensilstroku er saga fjölskyldu minnar betur fest í sameiginlegu minni heimsins og á síðum sögubókanna.“ 

Það sem vekur athygli mína eftir því sem ég þokast innar eftir löngum sýningarsalnum í Arsenale er sú staðreynd hversu mikið er af tvívíðum verkum á sýningunni í ár. Hér má finna fjöldann allan af málverkum, hér eru ljósmyndir, vefnaðarverk, mósaíkverk og svo verð ég nefna stórbrotin batik-verk þeirra Ṣàngódáre Gbádégẹsin Àjàlá og Susanne Wenger. Hér eru vitaskuld skúlptúrar líka og stórar innsetningar sem taka gjarnan yfir miðju sýningarsala Arsenale.

Ég hef það á tilfinningunni að af þeim fjórum tvíæringum sem ég hef sótt þá hafi aldrei verið eins lítið af vídeóverkum, hvort sem er stökum eða í formi stærri vídeóinnsetninga, á samsýningunni og nú. Vídeóinnsetningarnar finnast hér nú samt og gestir geta til að mynda horft á fleiri klukkutíma af myndefni í verkinu Disobedience Archive, sem er hugarfóstur 56 listamanna. 

Hér má einnig finna sjö rása vídeóinnsetningu fransk-marokkósku listakonunnar Bouchra Khalili, The Mapping Journey Project. Það sem við sjáum í verkunum sjö eru landakort, flestöll sýna þau Miðjarðarhafið og löndin sem að því liggja. Áhorfendur hlusta svo á frásagnir flóttafólks sem rekja ferðir sínar frá upprunalandi að þeim stað sem það er statt á þegar frásögnin á sér stað. Sumir viðmælendanna eru komnir á það sem kalla mætti áfangastað en aðrir eru enn að reyna að komast eitthvert annað. Á meðan við hlýðum á frásagnir þeirra teikna þau sem segja frá ferðalag sitt á kortið.

Þetta eru nístandi frásagnir. Meðal viðmælanda Khalili er fólk sem hefur verið í bráðri lífshættu á Miðjarðarhafi, einn viðmælandi þurfti barnungur að dúsa í fangelsi svo mánuðum skipti bara vegna þess að hann hafði ekki gild ferðaskilríki. Þarna eru líka frásagnir af öðru fólki sem nýtir sér neyð flóttafólksins. 

Frásagnirnar eru misjafnar að lengd og það helgast ekki einungis af því að viðmælendurnir hafa þurft að leggja á sig mislanga ferð. Frásagnirnar eru nefnilega einnig samfelldar og persónulegar að stíl, þ.e. ekki klipptar til. Khalili hefur tileinkað sér að hlusta, frekar en að taka viðtöl og það er mikilvægur eiginleiki að geta hlustað. Það skín í gegn í The Mapping Journey Project, og sögurnar verða enn áhrifaríkari fyrir vikið.

Hér látum við staðar numið í bili á þessari vel heppnuðu samsýningu í Arsenale. Hópurinn sem þar sýnir er mjög fjölbreyttur en listafólkið er engu að síður tengt í gegnum þá erfiðleika sem það hefur staðið frammi fyrir um ævina. Listafólkið tilheyrir jaðarsettum hópum sem hafa þurft að berjast fyrir frelsi frá nýlenduherrum, berjast fyrir mannréttindum, berjast gegn fordómum, berjast fyrir því að fá að vera þau sjálf. Þó svo að bæði þema tvíæringsins og þau mál sem listafólkið tekur til umfjöllunar kunni að virðast þung og erfið viðfangs, þá eru hér auðvitað verk líka sem fagna þeim sigrum sem unnist hafa í baráttunni. Hér má því finna verk sem eru vís til að kalla fram hlátur hjá gestum og svo eru hér einnig verk sem framkallað geta tár. Þetta er sjöunda greinin um Feneyjatvíæringinn þar sem fjallað er um meginstrauma og hugmyndir þar, spennandi þjóðarskála, óvissu samtímans. Titill aðalsýningarinnar er ,,Ókunnugir alls staðar’’ og er sýningastýrð af Adriano Pedrosa.

Nýútskrifaðir nemar frá myndlist í LHÍ og listfræði í HÍ, búsettir í Feneyjum í starfsnámi fyrir Íslenska skálann á Feneyjatvíæringnum vinna að greinarskrifum og pistlagerð þaðan um lykilhugtök og þemu sýninga sem standa nú yfir þar.

Grétar Þór Sigurðsson er 31 árs blaðamaður frá Reykjanesbæ. Hann lauk BA-prófi í listfræði við Háskóla Íslands árið 2019 og hefur síðustu misseri lagt stund á MA-nám í listfræði við sama skóla, með skiptinámi við Stokkhólmsháskóla. Frá 2020 hefur Grétar starfað sem blaða- og fréttamaður, hjá Kjarnanum og Heimildinni og nú síðast hjá Ríkisútvarpinu.

Tengdar greinar

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Um okkur