Myndlistarlífið blómstrar á Íslandi og má með sanni segja að árið hefjist af krafti.
Fyrirferðamestar nú um stundir eru sýningar sem eru hluti Ljósmyndahátíðar Íslands, alþjóðlegrar ljósmyndahátíðar sem haldin er á tveggja ára fresti. Á föstudaginn verður til dæmis opnuð í Listasafni Íslands sýningin Nánd hversdagsins þar sem verða sýndar rúmlega 60 ljósmyndir eftir þekkta alþjóðlega listamenn og mætti ætla að Sally Mann væri þeirra þekktust. Sýningarstjóri er Pari Stave. Sýningastaðir tengdir ljósmyndahátíðinni eru alls 14 talsins, allt frá stórum söfnum niður í lítil sýningarrými.
Önnur stór samsýning, þar sem taka þátt erlendir listamenn, er sýningin Er þetta norður? í Norræna húsinu. Listamennirnir eru allir frá hinu víðfeðma norðri eins og það er orðað í sýningartexta, en sýningin var áður sýnd í Listasafninu á Akureyri. Okkur telst til að í janúarmánuði einum verði opnaðar á milli 20-30 myndlistarsýningar, flestar á höfuðborgarsvæðinu en einnig í fyrrnefndu Listasafni á Akureyri. Þar verða þrjár sýningar opnaðar um helgina,Huldukonan, sýning Huldu Vilhjálmsdóttur í sýningarstjórn Hrafnhildar Gissurardóttur, Kristján Guðmundsson frumsýnir á Íslandi átta verk á sýningunni Átta ætingar og þá sýna saman Þórður Hans Baldursson og Þórunn Elísabet Sveinsdóttir á sýningunni Dömur mínar og herrar.
Íslenskir listamenn sýna verk sín víða um heim, þessa stundina eru nokkrar sýningar í Evrópu. Helgi Þorgils Friðjónsson sýnir verk sín í Silkiborg í Danmörku á sýningunni Livsånde i Næsebor , Ívar Glói Gunnarsson Breiðfjörð sýnir í Leuven í Belgíu, í Cas-co sýninguna fluff, Andreas Brunner sýnir í Belgrad í Serbíu, í U10 Art Space, sýninguna Drink Up My Desert og þá samsýning í Antwerpen í Hollandi, í Forbidden City sýningin Road Snacks.
Það er um að gera að fylgjast með sýningadagatali Myndlistarmiðstöðvar!