Samfélagsgerðir endurskoðaðar á Feneyjartvíæringnum 2022

04.07.2022

Á ferð minni um sýningar og þjóðarskála 59. útgáfu Feneyjartvíæringsins tók ég eftir sterku þema sem endurspeglar með afgerandi hætti hvað er í gangi utan “listheimsins”. Einn bersýnilegasti rauði þráður þessa tvíærings er, eins og segir í yfirlýsingu Ceciliu Alemani, afmiðjun hinnar vestrænu sjálfsmynd “mannsins” [1] eða með öðrum orðum fögnuður annarra sjónarhorna í stað hennar; og þræðir hann margan þjóðarskálann sem og sýningarstýrðu sýningu hinnar ítölsku Alemani.

Formlegum sýningum La Biennale di Venezia er skipt í tvo hluta (þrjá ef hliðarviðburðir teljast með). Annars vegar er yfirgripsmikil sýningarstýrð sýning sérhvern tvíæring á aðalsvæðunum, Giardini og Arsenale. Hins vegar eru þjóðarskálar, einnig staðsettir í Giardini, Arsenale (íslenski skálinn þar á meðal) og víðsvegar um Feneyjar, þar sem þær þjóðir sem taka þátt sýna sitt framlag.

Í ár ber sýningastýrða sýningin titillinn Mjólk draumanna (e. Milk of Dreams). Alemani býður gestum í ferðalag um ýmsar umbreytingar líkama og mögulegar samsetningar hans. Lögð er áhersla á samband manns og náttúru, samfélög og menningarheima og tengsl líkama við tækni. Pósthúmanismi er í fyrirrúmi út alla sýninguna, en sú stefna hugsunar gagnrýnir miðlægni “mannsins” í hinum náttúrulega heimi og steypir af stóli hinum ýmsu húmanísku tvíhyggjum svo sem menning/náttúra og sjálfið/annað [2]. Í samræmi við þessa stefnu aðalsýningarinnar takast margir listamenn sýningarinnar á við afmiðjun hins hvíta vestræna karlmanns og sýningin í heild varpar fyrir róða hugmyndinni um að hann sé algildur mælikvarði fyrir “manneskjuna” sem slíka [3]. Til að mynda er stór meirihluti þess listafólks sem eiga verk í sýningunni konur og kynsegin einstaklingar og koma frá 58 löndum. Fjölbreytileiki er þó ekki yfirlýst markmið sýningarinnar heldur ein afleiðing þemasins eða hugmyndafræðanna sem Alemani tekur fyrir.

Simone Leigh, Brick House, 2019.

Fyrsta rýmið sem gengið er inn í í Arsenale er fullkomið dæmi um slíka afmiðjun. Hinn gríðarstóri, næstum þriggja tonna, skúlptúr, Brick House (2019), eftir Simone Leigh setur tóninn. Botn skúlptúrsins líkir eftir byggingu, eða eins konar húsi, og er hol að innan og efri hlutinn er brjóstmynd ungrar svartrar konu með milt Mónu Lísu-legt bros. Brjóstmyndin er samtímis tignarleg en örlítið óhugnanleg, kannski er það augnaleysi konunnar sem kveikir í mér vott af óróleika en flest verk Leigh eru án andlits [4]. Þannig gæti þetta vel verið sláandi stíll listakonunnar að verki en mér leið í rýminu eins og meira væri í augnleysið spunnið.

Simone Leigh, Brick House, 2019.

Það var líkt og skúlptúrinn lýsti því hvernig er að hafa ekki sjónarhorn, hún horfir og sér en sjónarhornið er ekki gilt. Neðri hluti verksins dregur innblástur meðal annars frá veitingastað sem heitir Mammy’s Cupboard og er staðsettur við hraðbraut í Missisippi ríki. Fyrir Leigh virkar Mammy sem myndlíking fyrir það hvernig vinna og hlutverk hinnar svörtu konu er lagt að jöfnu við líkama hennar [5]. Afmiðjunin sem þræðir sýninguna alla felst þá í því að endurmeta sögu og hlutverk svörtu konunnar í gegnum skúlptúrinn.

Margir þjóðarskálar, Evrópuríkja og enskumælandi landa, á tvíæringnum 2022 leggjast í nátengda naflaskoðun um raunverulega samfélagsgerðir þjóðanna sem þeir standa fyrir og afmiðja þar af leiðandi hið vestræna sjónarhorn. Lögð er áhersla á raddir innfæddra, eftir-nýlendustefnu og sýnd eru verk eftir minnihlutahópa sem lengi hafa ekki fengið rými innan listheimsins. Simone Leigh er einnig fulltrúi Bandaríkjanna og leggur hún áherslu á sjónarhorn og huglægt viðhorf hinnar svörtu konu með skúlptúrum í sínum einstaka stíl [6]. En það eru fleiri en Bandaríkjamenn sem er þetta málefni ofarlega í huga. Svo fátt eitt sé nefnt leggur fulltrúi Nýja Sjálands, Yuki Kihara, áherslu á sinn eigin þjóðfélagshóp, þriðja kyns Samóa: Fa‘afafine, með skopstælingum af málverkum Gauguin og tekst þannig á við hina vestrænu kynjatvíhyggju [7]. Małgorzata Mirga-Tas fær innblástur úr heimkynnum sínum en innsetning pólska skálans sýnir tólf mánuði ársins í handverksstíl romafólks [8]. Zineb Sedira skoðar andspyrnukvikmyndir gegn nýlendustefnu Frakka í Alsír í franska skálanum [9]. Loks tekur sigurvegari gullna ljónsins, fyrir þjóðarskála, hin breska Sonia Boyce fyrir berskjaldaða samvinnu breskra svartra söngkvenna er þær þreifa sig áfram í spuna [10]. Sérhver þessara skála á gaumgæfilega skoðun vissulega skilið en það væri mér ofviða að ræða þá alla í þessum pistli þannig ég mun héðan í frá einskorða mig við nágranna okkar hér í norðrinu: Sámana en þau fá í fyrsta skipti gott rými á tvíæringnum þetta árið.

Í Mjólk draumanna spilar þekking innfæddra og heimssýn þeirra veigamikinn sess. Fyrstu rýmin sem heimsótt eru í Arsenale leggja áherslu á heimsýnir og andlega menningarheima víðsvegar að úr heiminum. Útsaumsverk hinnar Sámí, Brittu Marakatt-Labba, eru staðsett í þessu samhengi og standa sem falleg dæmi um töfrana sem felast í umhverfinu. Litlu útsaumsverkin gripu mig samstundis þegar ég sá þau á sýningunni í Arsenale. Sum útsaumsverkin eru eins og að horfa í gegnum litla hnetti sem mynda snæviþaktar vetrarveraldir, rammaðar inn af flóru, fánu, fólki í svefnpokum og litlum konum með ladjogáhpir, hefðbundna Sámi hatta sem líta út eins og fjarskyldar frænkur lambúshetta [11]. Önnur verk eru litlar landslagsmyndir saumaðar á hvítt efni þar sem bil eru á milli saumsporanna. Sú tækni gerir það að verkum að hvíta efnið á milli sporanna virkar sem friðsæl fönn og skapar þá tilfinningu að allt sé snævi þakið, einmanalegt, kyrrt en einstaklega lifandi.

Britta Marakat-Labba, One Day in November, 2021

Eitthvað við hið snæviþakta landslag hreif við mér og nóttin, sem við þekkjum svo vel á Íslandi, er hér í útsaumi Marakatt-Labba, göldrum líkust. Súrrealískir eiginleikar útsaumsins blandast við raunveruleika Sámanna. Myndræn frásagnaraðferð Sáma, með sínum náttúrutöfrum, fær rými í Arsenale og undirstrikar hina pósthúmanísku afmiðjun hins vestræna sjónarhorns gagnvart náttúrunni.

Eins falleg og mér finnst verkin vera, en þau eru mitt uppáhald á allri sýningunni, þá finn ég fyrir örlitlum trega þegar ég virði þau fyrir mér. Ég er alin upp á Norðurlöndunum, bæði í Danmörku og á Íslandi, og við hér heima til teljum okkur flest vera næstu nágrannar Norðmanna–og þó hef ég alltaf haft nokkuð grunna þekkingu á Sámum. Ég hugsa að ég sé ekki ein hér á landi sem bjó í nokkurskonar andvaraleysi um stöðu Sáma í Norrænum samfélögum og menningararfleifð þeirra. Nálægðin ýtir undir hina uggandi tilfinningu um hvað einsleita ímynd Norðurlandanna getur verið skaðleg; ég hefði átt að vita betur. Oflof Norræna víkingsins, brenglar ímynd þjóðanna út á við og inn á við með því að skyggja á hinn raunverulega fjölbreytileika sem er til staðar og þann vanda sem þessi þjóðafélagshópur stendur frammi fyrir.

Í ár tekst þó hin Norræni þjóðarskáli (Svíþjóð, Noregur og Finnland), á við þessa skaðlegu ímynd. Umbreyting hans í Sámaskálann hefur táknrænt gildi sem viðurkenning fullveldis Sámanna og er í fyrsta skipti sem Sámar eru fulltrúar Norðurlandanna á tvíæringnum. Sámar búa þvert á hin norrænu landamæri og hafa gert það áður en landamærin voru kortlögð. Þeir eru þó samansafn af fjölmörgum þjóðflokkum sem hafa yfir 10 mismunandi tungumál. Í skálanum eru verk eftir þrjá listamenn þau Pauliina Feodoroff, Máret Ánne Sara og Anders Sunna. Verk Máret Ánne Sara, voru í eftirlæti hjá mér og ég stóð stóreygð að skoða hin þurrkuðu hreindýr og hreindýraskinn sem hengd höfðu verið upp með taumum. Verkið Ale suova sielu sáiget (2022) minnir einna helst á einskonar óróa. Hangandi skúlptúrinn snýst hægt og samanstendur af þurrkuðum kálfum og plöntum. Ákveðin lykt fylgir verkinu sem erfitt er að lýsa en minnir á þurrkað gras, einskonar útilykt.

Sara gefur verkinu þá táknrænu merkingu að kvíða fyrir framtíð þar sem lífsviðurværi kálfanna eru af skornari skammti og framtíð Sáma er sömuleiðis í hættu [12]. Í eðli og efni voru verkin ekki gerð til þess að vara að eilífu; þau eru hvorki úr plasti né postulíni. Mér fannst sú staðreynd bæta einhverju einlægu við verkið–gera það heillandi, fallegt og táknrænt. Lífrænt eðli verkanna endurspeglar vel líkamlegar birtingarmyndir tilfinninganna sem hún tjáir í verkunum.

Pólitískt andrúmsloft Sámískálans er beinskeytt. Gildi Sáma má lesa hjá verkunum og verkin takast á við pólitískan raunveruleika, reynsluheima og sögu þeirra. Verk Anders Sunna takast á við lagasetningar sem ganga á réttindi Sáma í Svíþjóð og ber nýlenduleg lagaskjöl saman við myndræna frásögn. Einnig var haldið málþing á vegum aabaakwad, hópur sem ræðir raddir innfæddra innan list heimsins, og Sámaskálans við opnun tvíæringsins. Á málþinginu var tekist á við stórar spurningar um þjóðerni, stöðu innfæddra í listheiminum og pólitíska stöðu innfæddra gagnvart nýlendustefnum. Málþingið er allt á netinu og það má hlusta á allar umræðurnar sem þar fóru fram [13].

Forgrunnur: Máret Ánne Sara, Gutted – Gávogálši, 2022. Bakgrunnur: Máret Ánne Sara, Ale suova sielu sáiget, 2022. Ljósmynd: Michael Miller/OCA

Anders Sunna, Illegal Spirits of the Sápmi, 2022. Ljósmynd: Michael Miller/OCA

Með því að gefa Sámum rými skálans á sér stað endurskoðun á sjálfsmynd þjóðanna sem nú eru að viðurkenna hlut Sáma í sinni eigin sjálfsmynd. Afmiðjuð er ímyndin af einsleitum Norðurlandabúanum og nýlendustefnan sem hann hefur tileinkað sér í garð Sáma er undirstrikuð og harðlega gagnrýnd. Erfitt er, samt sem áður, að segja til um hvort og hversu langt slík endurskoðun nær: hvort hún hafi raunveruleg áhrif á lagasetningar og muni leiða að betri lífskjörum og virðingu fyrir menningu Sáma eða hvort hún sé einungis til staðar í menningarstofnunum. Mig langar þó að vona að list virki stundum sem spegill tíðarandans, einskonar brennidepill þess sem koma skal og leið til að tjá það sem ekki enn er búið að festa í sessi í skriffinnskulegu máli lagasetninga.

Eins má þá spyrja sig um getu listar innan fyrirkomulags líkt og Feneyjartvíæringurinn til þess að gagnrýna nýlendustefnu og fagna fjölbreytileika. Feneyjartvíæringurinn er elsti tvíæringur í heimi en hann hefur verið starfræktur síðan 1895. Þjóðarskála skipan tvíæringsins er vissulega dálítið gamaldags og hefur verið gagnrýnd sem nútíma “nýlendusýning”. Til dæmis umbreytir Simone Leigh bandaríska skálanum í strákofa líkt og var til sýnis á nýlendusýningunni í París 1931 og skýrir verkið Facade (2022). Að auki er Feneyjartvíæringnum stundum líkt við ólympíuleika myndlistarinnar, eins og Lilja Alfreðsdóttir, menningarráðherra komst að orði á foropnunar móttöku Íslenska skálans. En það kyndir undir hugmyndina um keppnisgirni, þjóðarstolt og öllu því sem fylgir að etja þjóðum upp á móti hvorri annarri. Þjóðir sýna sérvalda listamenn sem fulltrúa og oftar en ekki eru verkin tengd ímynd þjóðarinnar. Þannig styrkir þjóðarskála tilhögun tvíæringsins staðalímyndir, landamæri og þjóðartilfinningu. Flækjustig bætist þess vegna við þegar list í þjóðarskálum skoðar eigin samfélagsgerð og nýlendustefnu innan ramma sem alla jafna gefur hinum samfélagslega mótuðu (e. socially constructed) landamærum byr í seglin. Þrátt fyrir þá annmarka sem samhengi Sámaskálans hefur á tvíæringnum þá er samt sem áður tilfinning í loftinu, einskonar von, og það er vel hægt að hugsa sér að þjóðarskálaskipulag tvíæringsins og gagnrýni á nýlendustefnu útiloka ekki hvort annað algjörlega.

Loks er áhugavert að finna fyrir og sjá þann mikla áhuga sem er fyrir þessum skálum. Þeir taka beinan þátt í þeim umræðum sem eiga sér stað utan tvíæringsins eða listheimsins og spegla þannig stefnur og strauma nútímans. Ekki er gott að segja hvað framtíðin ber í skauti sér varðandi réttindi og stöðu hópanna sem á tvíæringnum fá rými en það er þó víst að snæviþakin landslög bræddu hjartað mitt og breyttu hugarfari mínu.

[1] “Many contemporary artists are imagining a posthuman condition that challenges the modern Western vision of the human being − and especially the presumed universal ideal of the white, male “Man of Reason” − as fixed centre of the universe and measure of all things.”
[2]https://oxfordre.com/communication/view/10.1093/acrefore/9780190228613.001.0001/acrefore-9780190228613-e-627
[3] https://www.labiennale.org/en/art/2022/statement-cecilia-alemani
[4]https://www.nytimes.com/2018/08/29/arts/design/simone-leigh-sculpture-high-line.html
[5] https://www.hauserwirth.com/ursula/28500-making-simone-leighs-brick-house/
[6] https://www.labiennale.org/en/art/2022/united-states-america
[7] https://www.labiennale.org/en/art/2022/new-zealand
[8] https://www.labiennale.org/en/art/2022/poland
[9] https://www.labiennale.org/en/art/2022/france
[10] https://www.labiennale.org/en/art/2022/great-britain
[11] https://www.labiennale.org/en/art/2022/milk-dreams/britta-marakatt-labba
[12] https://oca.no/thesamipavilion-maretannesara
[13] https://aabaakwad.com/current-gatherings/

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5