Summation - Each Autonomous, and yet Together 

21.10.2024
Ragnar Kjartansson_Hvad har vi dog gjort for at ha' det så godt_Screenshot_1 .png

Myndlistarsýningin Summation - Each autonomous, and yet together verður opnuð 24. október 2024 í Felleshus, sameiginlegu húsnæði norrænu sendiráðanna í Berlín í tilefni af 25 ára afmæli sameiginlegs sendiráðahúss Norðurlandanna í Berlín. Tíu listamenn sýna á sýningunni, þar af tveir Íslendingar, þau Ásta Fanney Sigurðardóttir og Ragnar Kjartansson. Sýningarstjóri er Margrét Áskelsdóttir. Sýningin markar tímamót í norrænu samstarfi og stendur til 19. janúar 2025. 

Í fréttatilkynningu segir að sýningin dragi nafn sitt af hugleiðingum Margrétar Þórhildar II. Danadrottningar sem lýsti norrænu samstarfi í sendiráðahúsinu árið 1999 með orðunum „Hver fyrir sig, en samt saman“. Þessi orð eru höfð að leiðarstefi sýningarinnar og segir að hún skoði samspil einstaklings og samfélags. Hún sé rómantísk melankólía um hina eilífu sammannlegu togstreitu sem felist í því að hugsa inn á við og lifa í samfélagi með öðrum. Sýningin varpi ljósi á mikilvægi samstöðu og trausts, ekki aðeins á sviði stjórnmálasamstarfs, heldur einnig milli einstaklinga í samfélagi. Með hlustun, trausti, umhyggju og virðingu skapist rými þar sem fjölbreytileiki, sköpunargleði og nýjar hugmyndir fái að blómstra.

Ragnar Kjartansson_Portrait_(c) Rafael Pinho .jpg

Ragnar Kjartansson

Á sýningunni eru verk eftir tíu listamenn frá Norðurlöndunum. Ragnar Kjartansson sýnir videóverkið Hvad har vi dog gjort for at ha' det så godt sem hann vann fyrir yfirlitssýningu sína í Louisiana safninu í Danmörku og Ásta Fanney Sigurðardóttir sýnir ný verk sérstaklega unnin fyrir sýninguna. Við opnun sýningarinnar fer fram þátttökugjörningurinn Breathe With Me eftir danska listamanninn Jeppe Hein. Þar taka áhorfendur þátt með því að mála lóðréttar, bláar línur á hvítan vegg, þar sem hver lína táknar andadrátt - sameinaða öndun heimsins. Verkið var upphaflega unnið fyrir höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna og Central Park árið 2019. 

Asta Fanney Sigurdardottir_Portrait_(c) Saga Sig .jpg

Ásta Fanney Sigurðardóttir

Gestir sýningarinnar verða hvattir til að deila eigin hugleiðingum um áhrif listanna og um framtíðina. Þessar hugleiðingar verða settar í tímahylki sem verður opnað eftir 25 ár. 

Listamenn sýningarinnar eru A.K. Dolven, Aksel Ree, Aura Hakuri, Ásta Fanney Sigurðardóttir, Christian Partos, Hanna Ljungh, Hans Rosenström, Jeppe Hein, Mille Kalsmose og Ragnar Kjartansson.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5