Tilnefningar til Íslensku myndlistarverðlaunanna 2020

24.01.2020
Íslensku myndlistarverðlaunin 2020 merki

Forvalslistar dómnefndar Íslensku myndlistarverðlaunanna hafa verið gerðir opinberir.

Fjórir myndlistarmenn eru í forvali til Myndlistarmanns ársins og þrír eru á lista Hvatningarverðlauna ársins. Alls bárust myndlistarráði yfir 60 tilnefningar. Af þeim fjölda voru 24 myndlistarmenn tilnefndir sem Myndlistarmaður ársins og 14 hlutu tilnefningu til Hvatningarverðlauna ársins.

Greint verður frá því hver af þessum fjórum verður titlaður Myndlistarmaður ársins og hver hlýtur Hvatningarverðlaun ársins á afhendingu Íslensku myndlistarverðlaunanna sem fer fram í IÐNÓ, fimmtudaginn 20. febrúar kl. 19:30. Myndlistarráð stendur einnig fyrir málþingi í formi pallborðs undir yfirskriftinni Íslensk myndlistarstefna sem hefjast mun í Iðnó kl. 18:00.

Tilnefningar 2020 Anna Guðjónsdóttir fyrir Hluti í stað heildar í Listasafni Reykjavíkur.

Anna Guðjónsdóttir

Islensku myndlistarverdaunin 2020: Anna Guðjónsdóttir fyrir Hluti í stað heildar í Listasafni Reykjavíkur

Anna Guðjónsdóttir: Hluti, Listasafni Reykjavíkur

Anna Guðjónsdóttir (f. 1958) er tilnefnd sem Myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna Hluti í stað heildar í A-sal Listasafni Reykjavíkur - Hafnarborg.

„Á sýningunni skapaði Anna með eftirminnilegum hætti nýtt verk í mörgum, samstilltum hlutum sem tók yfir sýningarsalinn og bjó til áhrifamikla heild listrænnar upplifunar sem byggði bæði á efnislegum eiginleikum rýmisins og leik með skynjun áhorfenda.

Anna hefur um árabil verið búsett í Þýskalandi, þangað sem hún fór í framhaldsnám, og hefur sýnt þar reglulega og unnið til virtra verðlauna. Anna hóf nám í höggmyndalist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands en listsköpun hennar á sér jafnframt rætur í málverkahefðinni og hún hefur á ferlinum tekist á við sígildar spurningar um mörk tvívíðs, málaðs flatar og þrívíðs, raunverulegs rýmis – mörk frummyndar og eftirmyndar.“

Islensku myndlistarverdlaunin 2020: Guðjón Ketilsson fyrir Teikn í Listasafni Reykjanesbæjar

Guðjón Ketilsson

Guðjón Ketilsson Bókasafn ÍMV 2020

Guðjón Ketilsson: Teikn, Listasafn Reykjanesbæjar

Guðjón Ketilsson (f. 1956) er tilnefndur fyrir sýninguna Teikn í Listasafn Reykjanesbæjar.

„Sýningin var samsett úr átta verkum sem tengdust með markvissri framsetningu í sýningarrýminu og fjölluðu öll með einum eða öðrum hætti um tákn, táknmerkingu og „lestur“, í víðum skilningi.

Guðjón hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í sýningum víða um lönd. Verk eftir hann er að finna í öllum helstu listasöfnum landsins. Guðjón hefur unnið jöfnum höndum að teikningum og þrívíðum verkum, eins og sjá mátti á sýningunni, en myndverk hans eru alla jafna í senn mikil völundarsmíð og hugleiðingar um tilvist mannsins. Mörg verka Guðjóns byggja á allra handa vísbendingum, táknum og tilvitnunum sem áhorfandinn skynjar og skilur og mátti sjá það með áhrifaríkum hætti á sýningunni Teikn.“

Islensku myndlistarverdlaunin 2020: Hildigunnur Birgisdóttir fyrir Universal Sugar í Listasafni ASÍ

Hildigunnur Birgisdóttir

Tilnefningar 2020 - Hildigunnur Birgisdóttir - Universal

Hildigunnur Birgisdóttir: Universal Sugar - 39.900.000 ISK 11.900.000 ISK., Listasafn ASÍ

Hildigunnur Birgisdóttir (f. 1980) er tilnefnd fyrir sýningatvennuna Universal Sugar - 39.900.000 ISK 11.900.000 ISK.

Sýningarnar Universal Sugar - 39.900.000 ISK 11.900.000 ISK voru settar upp í ólíkum íbúðum og mótaði það framkvæmdina með athyglisverðum hætti. Íbúðin í Vestmannaeyjum var eldri og ódýrari, en sú í Garðabæ í nýlegu fjölbýlishúsi. Í tómum íbúðunum hafði listakonan komið fyrir, eftir persónulegu kerfi, ýmsum fjöldaframleiddum hlutum sem virkjuðu rýmið með áhugaverðum og glettilegum hætti þar sem áhorfandinn fór um eins og gestur í leit að íbúð til kaups. Gestirnir voru hluti af verkinu – og líka nágranninn sem birtist við opnun annarrar argur yfir mannfjöldanum sem skyndilega fyllti næstu íbúð með tilheyrandi umgangi.

Verk Hildigunnar hafa á undanförnum árum vakið athygli fyrir það hvernig sjónum er beint að kerfum og hlutum í umhverfi okkar og unnið út frá þeim með hrekklausum og jafnvel barnslegum tengingum, þar sem stutt er í leik og gleði. Í listsköpun sinni afhjúpar Hildigunnur oft annmarka, sérvisku og skörun sem má sjá í heiminum sem fólk býr sér til í kringum sig í samtímanum – og áhorfandinn uppgötvar iðulega að í verkum sem virðast lágstemmd en þó glaðlega írónísk er hann sjálfur fyrir miðju, þau fjalla um hann sjálfan.

Tilnefingar 2020 Ragnar Kjartansson

Ragnar Kjartansson

Tilnefningar 2020 - Ragnar Kjartansson - Figurur i landslagi

Ragnar Kjartansson: Fígúrur í landslagi, i8 galleríi.

Ragnar Kjartansson (f. 1976) er tilnefndur fyrir sýninguna Fígúrur í landslagi og samnefnt vídeóverk í i8 galleríi.

Á sjö skjáum í sýningarsalnum gengu jafn margar 24 klukkustunda þöglar frásagnir. Á stórum skjá sem snéri út að Tryggvagötu gengu verkin síðan hvert af öðru, sólarhring eftir sólarhring, og mynduðu vikulanga kvikmyndaða frásögn. Á skjáunum sáu áhorfendur fígúrur í hvítum sloppum, einkennisklæðnaði lækna og starfsfólks á tilraunastofum, ráfa um manngert landslag, í allskyns afslöppuðum samskiptum eða íhugun, einn eða fleiri í senn – stundum var sviðið mannlaust og máluð leikmyndin sem vísar til rómantískrar náttúru fékk að njóta sín sem málverk.

Sýningin Fígúrur í landslagi var að mati dómnefndar metnaðarfull tilraun með frásagnarmáta, virkni og merkingu listaverksins. Í verkinu fæst Ragnar við spurningar um hversdagsleika mannlegrar tilveru, samband okkar við umhverfi okkar og beitir til þess nýstárlegri listrænni nálgun.

Verk Ragnars vöktu víða athygli og aðdáun á árinu. Hróður hans fyrir marglofaða listsköpun berst víða og hann er góður fulltrúi íslenskra listamanna á alþjóðlegum vettvangi. Yfirlitssýning á verkum hans var til að mynda opnuð í Kunstmuseum Stuttgart í júlí og nokkru áður var nýtt margra rása myndbandsverk hans, tekið í Skaftártungum, frumsýnt í Metropolitan Museum í New York. Gagnrýnendur breska dagblaðsins The Guardian völdu verk Ragnars, The Visitors, áhrifamesta myndlistarverk síðasta áratugar.

Hvatningarverðlaun

Þrír listamenn eru tilnefndir til hvatningarverðlaunanna.

Islensku myndlistarverdlaunin 2020: Claire Paugam

Claire Paugam

Islensku myndlistarverdaunin 2020: Claire Paugam: Pouring Inside, 2019.

Claire Paugam

Claire Paugam (f. 1991) er tilnefnd til hvatningarverðlauna 2020 fyrir metnaðarfullt og kröftugt framlag til myndlistar á árinu. Claire er franskur myndlistarmaður sem búsett hefur verið á Íslandi um árabil. Hún lauk myndlistarnámi við Beaux-Arts de Nantes Métropole árið 2014 og meistaranámi við Listaháskóla Íslands 2016 og hefur síðan verið ákaflega virk í myndlistarumhverfinu, bæði á Íslandi og Frakklandi.

Claire fæst að jöfnu við myndlist og önnur fjölbreytt verkefni á sviði sýningarstjórnunar, sviðshönnunar, gerð tónlistarmyndbanda, ljóða og textaverka. Má helst nefna einkasýningarnar Pouring Inside í sýningarrýminu Flæði sem var utandagskrárviðburður listahátíðarinnar Sequences IX og Versatile Uprising, gagnvirka innsetningu í gluggagalleríinu Veður og vindur, ásamt Raphaël Alexandre.

Claire vinnur með persónulega fagurfræði í verkum sínum, að mati dómnefndar hefur hún skýra og áhugaverða listræna sýn og er gjöfull og kröftugur þátttakandi í listinni.

Islensku myndlistarverdlaunin 2020: Emma Heiðarsdóttir

Emma Heiðarsdóttir

Tilnefningar 2020 - Emma Heiðarsdóttir - Jaðar LR

Emma Heiðarsdóttir: Jaðar, í D-sal Listasafns Reykjavíkur

Emma Heiðarsdóttir (f. 1990) er tilnefnd til hvatningarverðlauna 2020 fyrir metnaðarfullt og kröftugt framlag til myndlistar á árinu. Í verkum sínum fæst Emma við rými listaverksins og fyrirfram gefnar hugmyndir um listaverkið og virkni þess. Hún endurskilgreinir og brýtur upp listupplifun áhofenda, og spyr með því áleitinna spurninga um hlutverk og merkingu listarinnar. Verk Emmu einkennast af öguðu sjónarhorni og vinnubrögðum, sterkri persónulegri nálgun og frumlegum efnistökum.

Í sýningu sinni, Jaðar, í D-sal Listasafns Reykjavíkur, beitti Emma inngripum í sýningarrýmið til þess að velta upp spurningum um stund og stað myndlistar. Möguleikar áhorfenda til að skynja og upplifa verkin, bæði í rými og tíma, voru viðfangsefni sýningarinnar og með því að gera þetta samband verks og skynjunar, sem oft er tekið sem sjálfgefnu, að viðfangsefni sínu, tóks Emmu að búa til sterka og ögrandi heild þar sem verk og sýningarrými voru sett í óvænt samhengi.

Emma lauk MFA gráðu frá Listaháskólanum í Antwerp árið 2018 eftir að hafa útskrifast frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2013. Hún spyr krefjandi spurninga í verkum sínum og beitir til þess öguðum og áhugaverðum vinnubrögðum. Það er mat dómnefndar að henni takist með eftirminnilegum hætti að fjalla um viðfangsefni sem standa nærri kjarna myndlistarinnar og listupplifunarinnar og að hún sé í ljósi þessa vel að tilnefningunni komin.

Islensku myndlistarverdlaunin 2020: Sigurður Ámundason

Sigurður Ámundason

Islensku myndlistarverdaunin 2020: Sigurður Ámundason, Endur-reisn, 2019

Sigurður Ámundason: Endur-endurreisn, Kling & Bang

Islensku myndlistarverdlaunin 2020: Sigurður Ámundason

Sigurður Ámundason (f. 1986) er tilnefndur til hvatningarverðlauna 2020 fyrir kröftugan og áhugaverðan afrakstur á árinu. Þar ber hæst sýninguna Endur-endurreisn í gallerí Kling & Bang þar sem hann sýndi teikningar, vídeó og þrívíð verk sem einnig voru hlutar af gjörningi. Á árinu tók hann þátt í Chart Emerging og Salts í Basel í Sviss, í sýningu í Hverfisgalleríi, Í kring á Reykjavík Roasters, ásamt einkasýningunni Dalur eða gljúfur í sýningarrýminu Ekkisens sem jafnframt var tíunda einkasýning hans. Sigurður útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2012.

Verk Sigurðar eru í senn gáskafull og tregafull. Þau búa yfir ögrandi fagurfræði og sveiflast á milli fantasíu og raunveruleika. Stórar teikningar, nosturslega unnar með kúlupenna og trélitum, mynda mikilvægan hluta höfundarverksins, en þeim er gjarnan stillt upp með vídeóverkum og gjörningum. Áhorfandinn er dreginn inn í draumkenndan heim teikninganna en jafnharðan kippt niður á jörðina með ofurraunsæjum senum í vídeóverkunum og eftirleifum gjörnings.

Með því að beita fyrir sig mörgum ólíkum miðlum setur Sigurður ekki aðeins saman áhugaverðan myndheim, heldur býr hann til aðstæður þar sem áhorfandinn fær tækifæri til að endurnýja kynni við gömul stef, flækjast um í nýju landslagi, endurmeta hugrenningar og myndhverfingar, og nálgast á nýjan hátt klisjur fengnar bæði úr hálist og láglist. Það er mat dómnefndar að Sigurður sé vel að tilnefningunni kominn. Hann er óhræddur við fáránleikann og fagnar óreiðunni, en er jafnframt ávallt sjálfum sér samkvæmur.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5