Listahátíðin Sequences verður haldin í ellefta skipti dagana 13-22 október í Reykjavík og ber að þessu sinni yfirskriftina „Get ekki séð“ (e. Can’t See). Titill hátíðarinnar er fenginn úr verki eftir eistneska listamanninn Edith Karlson sem tekur þátt í hátíðinni og vísar í þá óvissu sem við lifum við í nútímasamfélagi og getuleysi (eða viljaleysi) til að sjá bæði fjölbreytileika lífsins og sívaxandi ógn vistfræðilegra hamfara. Sýningarstjórn: Marika Agu, Maria Arusoo, Kaarin Kivirähk og Sten Ojavee hjá Estonian Centre for Contemporary Art (CCA).
Sequences real time art festival er listamannarekin alþjóðleg myndlistarhátíð sem haldin er annað hvert ár í Reykjavík. Sequences beinir sjónum sínum sérstaklega að verkum í rauntíma. Frá upphafi hefur verið lagt upp með að þar ríki andi frumkvæðis, tilrauna og áræðni. Meðal fyrri listamanna sem sýnt hafa á hátíðinni eru Joan Jonas, David Horvitz, Agnes Martin, Hekla Dögg Jónsdóttir, Guido van der Werve, Ragnar Kjartansson, Emily Wardill, Roger Ackling, Margrét H. Blöndal, Carolee Schneemann, Rebecca Erin Moran, Finnbogi Pétursson og Alicja Kwade svo örfáir séu nefndir. Sýningastjórar fyrri hátíða hafa verið íslenskir og erlendir listamenn og sýningarstjórar og má þar nefna Margot Norton, Markús Þór Andrésson og Alfredo Cramerotti.
Fyrri hátíðir
Sýningarstjórar:
Þráinn Hjálmarsson & Þóranna Björnsdóttir
Heiðurslistamaður:
Elísabet Jökulsdóttir
Kominn tími til er yfirskrift tíundu Sequences hátíðarinnar sem haldin verður dagana 15.-24. október næstkomandi. Vísar yfirskrift hátíðarinnar í það samfélagsrými augnabliksins sem hátíðin skapar sér hverju sinni.
Á hátíðinni má finna ólík samtöl listamanna, ýmist við umhverfi sitt, sögu eða við aðra listamenn. Samtöl eru í eðli sínu mörkuð af augnablikinu og samhengi þeirra. Meðvitað og ómeðvitað fléttast inn í samtölin sá tíðarandi og ríkjandi hugmyndir í samfélaginu hverju sinni. Þar sem hugmyndir innan samfélaga eru kvikar og breytingum háðar, líkt og samfélögin sjálf, gefst kostur á að lesa í flæði tímans og þróun hinna ýmsu samfélagslegu hugmynda. Að hreyfa við viðteknum hugmyndum samfélagsins gerir okkur kleift að hreyfa við tímanum.
Hátíðin í ár skartar fjölbreyttum hópi listamanna sem eiga það sameiginlegt að vera gjafmildir á tíma sinn, hugmyndir og sköpunarkraft. Þeir eru færir um að drífa áfram verkefni og skapa aðstæður fyrir samtöl og þátttöku. Þannig verða oft til listaverk sem felast í beinum samskiptum listamannsins við tiltekið rými eða umhverfi og þau tengsl við áhorfendur sem verkið skapar. Samtal listamannsins og meðtakandans getur svo orðið að listaverki útaf fyrir sig, í formi sem lifir órætt í huga þess sem meðtekur. Verður þá til listaverk sem miðla mennskunni og hugmyndum um mannlegt ástand og frelsi.
Sýningarstjórar: Hildigunnur Birgisdóttir / Ingólfur Arnarsson
Heiðurslistamaður: Kristinn G. Harðarson
Sequences IX teygði anga sína víða með sýningum og viðburðum meðal annars í Marshallhúsinu á Granda, sem hýsir bæði Nýlistasafnið og Kling & Bang, Ásmundarsal, Harbinger, Open og Bíó Paradís.
Undirtitill Sequences, real time art festival, vísar til upphaflegu áherslu hátíðarinnar á tímatengda miðla og verk sem unnin eru í rauntíma. Að þessu sinni er orðið rauntími slitið í sundur og afstæði hugtakanna raun og tími kannað. Á hátíðinni í ár gefst áhorfendum því kostur á að kynnast nokkrum sjónarhornum veruleikans sem lýsa mögulega þeim tímum sem við upplifum nú. Ingólfur og Hildigunnur takast á við spurningar um veruleika og hjáveruleika, rauntíma og afstæðan tíma með víxlverkun þeirra listaverka sem stefnt verður saman.
„Hver tími er hverjum tímverja raunverulegur á sérhverju augnabliki. Rauntíminn ferðast eftir óteljandi rásum sem hverfast um hvern þann sem þar dvelur. Það er hverjum hollt að dýfa tánni í annars tímarás og fá þannig nýtt sjónarhorn á raunveruleikann.”
Sýningarstjóri: Margot Norton
Heiðurslistamaður: Joan Jonas
„Sequences VIII: Teygjanlegir tímar“ bauð upp á margvíslegar innsetningar, gjörninga, hljóðverk, vídeóverk og íhlutun í almenningsrými um alla Reykjavík. Um leið og Sequences-hátíðin notar hugtakið „rauntími“ til að vísa til miðlunar í tíma, felur „teygjanlegur tími“ í sér hvernig nota má hugtakið um þá reynslu og upplifun að skapa list, með því að skoða hvernig listamenn eiga við tímann sem hráefni. Hugtakið „rauntími“ kallar svo ósjálfrátt fram orðið „órauntími“ og varpar þannig fram spurningum um hvers vegna afstrakt mælitæki eins og klukka teljist raunverulegri en tíminn eins og einstaklingurinn upplifir hann. Klukkan veitir vissulega samstillingu, en engu að síður er hugmynd okkar um tímann takmörkuð þegar tekið er tillit til smásærra eða jarðfræðilegra tímakvarða. Með því að teygja, bergmála og snúa upp á tímann fara verkin á Sequences VIII oft handan staðlaðra mælinga til að kanna óhefðbundin kerfi. Þessi verk minna okku á að hrynjandi hversdagsins ákvarðast ekki eingöngu af hefðum og stað, heldur getur hún líka verið einstaklingsbundin, sérsniðin jafnvel, eða rótgróin í náttúruöflum sem við höfum enga stjórn á.
Sýningarstjóri: Alfredo Cramerotti
Heiðurslistamaður: Carolee Schneemann
Sýningarstjóri: Markús Þór Andrésson
Heiðurslistamaður: Grétar Reynisson