Guardians of nature
Ecaterina Botezatu
-2025-2000x1125.jpg&w=2048&q=80)
“Guardians of Nature” er röð olíumálverka sem fanga hina viðkvæmu en villtu orku náttúrunnar, birt í mynd kvenna.
Hvert málverk sýnir tvíeðli náttúrunnar—fegurð hennar og mýkt en einnig styrk og þrautseigju. Eins og náttúruöflin sem þær spretta úr eru þessar konur lífskraftar, mótaðar af landslaginu sem umlykur þær. Þær renna saman við ískaldan bláma jökla, logandi hraun og dularfullt ljós norðurljósanna og standa sem verndarar heims sem er bæði hrífandi og brothættur.
Þessi málverk eru persónuleg og sprottin af beinni upplifun á áhrifum loftslagsbreytinga. Að sjá jökla hörfa og landslag breytast fyrir eigin augum hefur skilið eftir djúp spor í verkum listakonunnar. Með þessari málverkaröð er áhorfendum boðið að staldra við og skynja þessa viðkvæmu umbreytingu náttúrunnar—hvernig ísinn bráðnar, ljósið breytist og landið þróast. Í verkunum býr hljóðlát aðvörun, ákall um að horfa, meta og muna það sem er að hverfa, finna jafnvægið milli styrks og viðkvæmni áður en það glatast.
Kat (Ecaterina Botezatu, f. 1999) er myndlistarkona og húðflúrari frá Moldóvu, búsett á Íslandi síðan 2019. Hún nam við Listaháskólann í Chisinau og lagði áherslu á mannamyndir, kyrralíf og andlitsmyndir. Bakgrunnur hennar í myndlist endurspeglast í bæði málverkum og húðflúrum, þar sem hún sameinar nákvæmni og tilfinningu til að skapa tjáningarrík verk. List hennar er djúpt tengd náttúrunni, og hún notar mismunandi miðla til að fanga bæði fegurð hennar og umbreytingar.
Sýningaropnun verður fimmtudaginn 6. mars frá 18:00-20:00 og allir velkomnir!
Aðrir opnunartímar:
Föstudagur 7. mars 13:00 - 18:00
Laugardagur 8. mars 12:00 - 16:00
Sunnudagur 9. mars 14:00 - 17:00
Listamaður: Ecaterina Botezatu
Sýningarstjóri: Elvar Gunnarsson