0° 0° Núlleyja
Hekla Dögg Jónsdóttir
Núlleyja er ímyndaður staður á miðju hafsvæði Gíneuflóa. Þar á hnitakerfi jarðarkúlunnar sér upphafsviðmið í skurðpunkti miðbaugs og núllbaugs. Staðsetningarkerfið er mannanna verk rétt eins og dagatalið þótt maður leiði hugann sjaldan að því. Í verkum sínum skoðar Hekla Dögg Jónsdóttir slík grunnkerfi og beinir sjónum okkar áhorfenda að stað og stund. Hún teygir á hugmyndum okkar um „hér og nú“ og notar listina sem frjálst og opið rými þar sem hver og einn markar sér eigin viðmið. Verk hennar eru hverfull leikur á mærum hin hversdagslega og hins töfrandi þar sem óvæntar ummyndanir bjóða okkur að upplifa tilveruna í nýju ljósi.
Hekla Dögg er sjöundi listamaðurinn sem valinn er til þátttöku í sýningaröð Listasafns Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum, þar sem farið er yfir feril lykilpersóna í íslensku listalífi. Hvert og eitt þeirra er valið með tilliti til einstaks framlags þeirra og sérhæfingar á sínu sviði, bæði hvað viðvíkur miðlum, aðferðum og viðfangsefnum. Slík stöðutaka á sér stað í framsetningu lykilverka frá ólíkum tímum í Vestursal Kjarvalsstaða og útgáfu sýningarskrár þar sem fjallað um ferilinn í samhengi listasögunnar og samtímans. Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson.
Hekla Dögg er fædd 1969 og stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1991 – 1994. Hún sótti skiptinám við Listaháskólann í Kiel í Þýskalandi og viðbótarnám við Staatliche Hochschule für Bildende Künste í Frankfurt am Main. Að loknu námi í Þýskalandi hélt Hekla til Bandaríkjanna til náms við Listaháskólann í Kalíforníu, California Institute of the Arts þaðan útskrifaðist hún með BFA gráður 1996 og MFA gráðu árið 1999. Allt frá útskrift hefur Hekla verið virk í sýningarhaldi og hefur sýnt í söfnum og á öðrum sýningarstöðum bæði hér heima og erlendis, meðal annars í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Tate Modern safninu í London og Truck samtímalistamiðstöðinni í Calgary í Kanada. Hekla gegndi stöðu prófessors í myndlist við Listaháskóla Íslands frá árinu 2012 til 2022 og er einn af stofnendum og meðlimur Kling & Bang.
Listamaður: Hekla Dögg Jónsdóttir
Sýningarstjóri: Markús Þór Andrésson