Loftlína
Hrafnkell Tumi Georgsson

Á sýningunni Loftlína frumsýnir Hrafnkell Tumi skúlptúra og vídeóverk. Margrása vídeóverk sem fylgist með atburðarás sem átti sér stað samtímis á mismunandi fjallstindum á Suðurlandi við sólsetur. Verkin voru unnin á undanförnu ári og fjalla um samskipti og landslag í rými og tíma. Í verkum sínum skoðar Hrafnkell oft eðlisfræðileg fyrirbæri sem hafa áhrif á daglegt líf okkar og notar einfaldar tæknilausnir til þess—lausnir sem reynast svo oft flóknar í framkvæmd. Verkin á sýningunni kanna mismunandi fasa skynjunar sem við skiptumst á að nota daglega, sem og þær aðferðir sem við beitum til að ná utan um og skrásetja umheiminn.
Hrafnkell Tumi Georgsson (f. 1999) útskrifaðist með BA í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2022. Hann vinnur helst með skúlptúr og vídeó og starfar við kvikmyndun samhliða listinni. Hrafnkell hefur sýnt verk á Vetrarhátíð Reykjavíkur 2023, List í Ljósi á Seyðisfirði 2023 og It Plays Hard í Norræna húsinu 2024. Þetta er hans fyrsta einkasýning. Hrafnkell situr í fagráði Sequences.
Listamaður: Hrafnkell Tumi Georgsson