Meðal guða og manna: Íslenskir listamenn í Varanasi
Einar Falur Ingólfsson, Eygló Harðardóttir, Guðjón Ketilsson, Margrét H. Blöndal, Sigurður Árni Sigurðsson, Sólveig Aðalsteinsdóttir
Tími og rými að starfa í eru tveir grundvallarþættir skapandi vinnu. Fyrir listamenn sem beita sjónrænum miðlum er vinnustofan griðastaður, persónulegur vettvangur fyrir djúpa íhugun og ástundun. Þessi sýning er afrakstur verkefnis sem hverfist um spurninguna: Hvað gerist þegar listamenn starfa um hríð í vinnustofu víðs fjarri öryggi hins vanabundna hversdagslífs? Á sýningunni Meðal guða og manna gefst innsýn í reynslu sex mótaðra og margreyndra íslenskra listamanna en verkin sem eru sýnd urðu til í tengslum við dvöl þeirra nýverið í gestavinnustofum Kriti Gallery og Anandvan Residency í Varanasi á Indlandi. Samtengdar vinnustofurnar eru á afgirtu svæði, umluktar gróskumiklum garði; þar eru rúmgóðar vinnustofur með svefnaðstöðu fyrir listamennina og sameiginlegt eldhús og borðstofa – sannkallaður griðastaður í sögufrægri borg með einhverja lengstu samfelldu búsetu manna. Vinnustofurnar eru í senn staður að starfa á og grunnbúðir fyrir leiðangra inn í marglaga heima Varanasi (sem einnig er þekkt sem Banaras), andlega miðstöð sem meðal hindúa er þekkt sem „bústaður guðanna“, með ótölulegum fjölda hofa og altara sem helguð eru ákafri tilbeiðslu. Varanasi er borg öfga og fjölskrúðgs mannlífs en jafnframt alvörugefinnar sorgar við líkbrennslurnar á tröppunum við hið helga Gangesfljót. Ljósmyndarinn og rithöfundurinn Einar Falur Ingólfsson ferðaðist árið 1999 fyrstur listamannanna sex til Varanasi. Indverski ljósmyndarinn Dayanita Singh, kunningi hans, kynnti hann síðar fyrir hjónunum Navneet Raman og Petra Manefeld (sem eru höfðinglegir gestgjafarnir í Kriti Gallery og Anandvan Residency sem til var stofnað árið 2007), og Ajay Pandey, fræðimanninum fróða sem leiðir ásamt Raman listamennina sem starfa í vinnustofunum um borgina og veita þeir ríkulega innsýn í sögu hennar og menningu. Eftir að hafa dvalið og starfað nokkrum sinnum í vinnustofunum fékk Einar Falur þá hugmynd að fá nokkra reynda listamenn landa sína með sér til Varanasi, forvitinn að sjá hvernig verk kynnu að vera afrakstur dvalar þeirra í borginni helgu. Vandfundin eru ólíkari lönd og menningarheimar en Ísland og Indland. Annarsvegar er Ísland, staðsett norður undir heimskautsbaug, fámennt, einangrað landfræði- og sögulega, og þjóðin sem byggir eyna er tiltölulega einsleit menningarlega. Indland, hinsvegar, er við mörk hitabeltisins, afar þéttbýlt, fornt, og byggir menningarlega á fjölda laga margbrotinnar sögu á vegamótum menningarlega ólíkra heima. Íslensku listamennirnir sem héldu til Varanasi fetuðu í fótspor fjölmargra annarra listamanna sem hafa farið þangað í leit að áhrifum og upplifunum. Samt var tilgangurinn ekki að myndskreyta eða túlka það sem þau rákust á; þess í stað var ætlunin að leyfa því áreiti á skynfærin, sem óneitanlega á sér stað í ferð til Indlands, flæða um taugakerfið og heilann, og sjá hvaða áhrif það myndi hafa á sköpunarverk þeirra.
Listamenn: Einar Falur Ingólfsson, Eygló Harðardóttir, Guðjón Ketilsson, Margrét H. Blöndal, Sigurður Árni Sigurðsson, Sólveig Aðalsteinsdóttir
Sýningarstjóri: Pari Stave