Misskilningur í skipulagsmálum
Sólbjört Vera Ómarsdóttir

Á sýningunni Misskilningur í skipulagsmálum sýnir Sólbjört ný verk sem unnin hafa verið síðastliðið ár. Á sýningunni er tekist á við þau átök sem verða við stórar breytingar. Verk sýningarinnar eru tilvísanir í þær sögur sem verða til innan veggja heimilisins og þær tilfinningalegu áskoranir sem speglast í tíðarandanum. Sjónarspil sem endurtekningar hversdagslífsins mynda í víðfemum efnistökum tilverunnar er rannsakað í snertingu við dauða hluti sem og þær tilfæringar sem dauðir hlutir krefjast af einni manneskju. Efnistök sýningarinnar má rekja til hvatvísi í handverki sem gjarnan fylgir skoplegum uppákomum daglegs lífs.
Sólbjört Vera Ómarsdóttir (f.1993) er sjálfstætt starfandi listamaður og meðlimur í stjórn listamannarekna rýmisins Kling & Bang síðan árið 2020. Verk hennar hafa verið sýnd á samsýningum eins og D- Vítamín í Listasafni Reykjavíkur, Rúllandi Snjóbolti á Djúpavogi og Löng helgi í Reykjavík, Borgarnesi og Hvolsvelli. Með verkum sínum gerir Sólbjört atlögu að því að undirstrika spaugileg þemu í hversdagslegri angurværð og vinnur oftast í miðla eins og skúlptúr og vídjó.
Listamaður: Sólbjört Vera Ómarsdóttir