Næturútvarp
Ásta Fanney Sigurðardóttir
Sýningin er innblásin af verkinu Næturútvarp á Öræfajökli, geómetrísku abstraktmálverki sem Svavar Guðnason málaði 1954-1955 og tileinkaði vini sínum Jóni Leifs. Þessa sögu hefur myndlistakonan og skáldið Ásta Fanney Sigurðardóttir tekið og unnið upp úr sýningu sem fer með gesti inn í heim málverksins. Að sögn listamannsins er kveikja sýningarinnar lítill gylltur kassi í verki Svavars, sem virkar eins og dyr inn í málverkið og þar með aðra veröld þar sem litir og form verksins lifna við. Á sýningunni eru tvö videoverk, hljóðverk, málverk, ljósmynd og skúlptúrar. Ásta Fanney skar út nótnablöð með tónverkum Jóns Leifs eftir geometrískum formum úr verki Svavars, úr þeim vann hún í samstarfi við sellóleikarann Gyðu Valtýsdóttur og píanóleikarann Áshildi Ákadóttur hljóðverk sem óma í rýminu. Litir og form úr málverki Svavars vakna til lífsins í einskonar abstrakt útvarpi þar sem skipt er um stöð aftur og aftur. Næturútvarpið sjóngerist að endingu í klassísku málverki á striga og þar með er hringnum lokað. Sýningin er mjúk hrynjandi með sterku hljómfalli draumkenndra andstæðna og nýrra tíma.
Listamaður: Ásta Fanney Sigurðardóttir
Sýningarstjóri: Margrét Áskelsdóttir