Sitt hvoru megin við sama borð
Hrafn Hólmfríðarson, Þórsteinn Svanhildarson
Sitthvoru megin við sama borð er samsýning ljósmyndaranna Hrafns Hólmfríðarsonar (Krumma) og Þórsteins Svanhildarsonar. Þeir eiga það sameiginlegt að lifa í návígi við fötlun en þó á ólíkan hátt. Þórsteinn veitir umönnun á meðan Hrafn þiggur hana.
Hrafn (f. 1990) fékk heilablæðingu á heilastofn árið 2009 og er líkamlega fatlaður í kjölfar áfallsins. Hann á við jafnvægistruflanir að stríða, ásamt skerðingu á fínhreyfingum og snertiskyni í hægri hlið líkamans. Í verkinu sýnir Hrafn ljósmyndir sem veita innsýn í samband hans við móður sína, Fríðu.
Þórsteinn (f. 1988) eignaðist dóttur sína Sól sumarið 2021. Sól fæddist með afar sjaldgæft heilkenni, Rubinstein Taybi, og veldur það þroskahömlun og líkamlegri fötlun. Í verkinu sýnir Þórsteinn ljósmyndir úr daglegu lífi fjölskyldunnar sem reynir þrátt fyrir fjölda áskoranna að lifa hefðbundnu lífi.
Listamenn: Hrafn Hólmfríðarson, Þórsteinn Svanhildarson