Skriður

Guðmundur Thoroddsen

Skriður Guðmundur Thoroddsen

Hér á landi bera margir staðir nafnið Skriða, enda lýsir orðið algengu fyrirbæri í landslaginu; skriðufall verður þegar aur og grjót rennur úr fjallshlíð niður á láglendi. Skriða er ógreinilegt form, fyrirbæri þar sem hlutir eru á hreyfingu eða á leiðinni eitthvað annað. Oftast með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og því eins gott að vera ekki að þvælast fyrir. Á síðustu árum hafa skriður aukist og eru í hugum margra ógnvænleg náttúruvá. Skrið á einmitt við um

hreyfingu, en oftast í jákvæðri merkingu: Skrið er framþróun, að komast á skrið. Við byrjum flest á því að skríða, réttum okkur svo af til að ganga upprétt og komast áfram í lífinu. En um leið byrjar óvissan, því hvernig vitum við hvert við eigum að fara? Á sýningunni SKRIÐUR sýnir Guðmundur Thoroddsen ný málverk frá þessu ári þar sem hann heldur áfram áhugaverðum tilraunum sínum með olíustifti. Málverkin má sjá sem rökrétt framhald af stóru verki sem unnið var með olíustiftunum og sýnt á Chart Art Fair í Kaupmannahöfn árið 2023 og síðar á sýningunni Nokkur nýleg verk – ný aðföng í safneign í Listasafni Íslands 2023/24.

Verkin á sýningunni eru öll unnin á hörstriga með olíulit og olíustiftum, sem hann blandar og býr til sjálfur, þar sem listamaðurinn lætur lit og áferð stiftisins leiða sig áfram fremur en að hafa ákveðið myndefni í huga. Í ferlinu reynir Guðmundur að láta ekki hugmyndir þvælast fyrir sér og í þessum skilningi er hann kominn á kunnuglegar slóðir abstraktlistarinnar. Á sýningunni reynist enda erfitt að greina fígúrur eða andlit í myndfletinum eins og mörgum fyrri verkum listamannsins, þar sem hann hefur iðulega reynt á mörk hins hlutbundna og óhlutbundna með eftirminnilegum hætti. Guðmundur er ekki abstraktmálari, því hér má greina einhverskonar náttúru í verkunum og titlarnir vísa beint í ýmis landslagsfyrirbæri. En hann er heldur ekki landslagsmálari. Verkin eiga sér ekki fyrirmyndir, hann er ekki að mála tiltekna skriðu heldur er náttúran formræn grind eða hugmyndalegur rammi utan um verkin sem skapa merkingartengsl fyrir áhorfendur (og hugsanlega listamanninn sjálfan); til þess að við séum ekki algjörlega í lausu lofti þegar við stöndum andspænis verkunum heldur með fast land undir fótum. Það má velta fyrir sér hvort þetta sé ekki séríslenskt fyrirbæri, það er að sjá landslag í öllum sköpuðum hlutum; sjóndeildarhring hér og fjallgarð þar, sjó og land, urð og grjót. Guðmundur er meðvitaður um þetta og stendur líka traustum fótum í listasögunni. Þannig vísa nýju verkin líka óbeint í frumherja íslenskrar málaralistar, til að mynda Svavar

Guðnason (1909-1988) sem einnig lék sér að mörkum hins náttúrulega og ímyndaða í verkum sínum. Þegar við stöndum andspænis listaverkum þá er ekki óalgengt að spyrja sig hvar

listamaðurinn er staddur í list sinni, eða hvert hann sé að fara. Ég held að það sé ekki tímabært að svara þessum tilteknu spurningum í tilviki þessarar sýningar. Nýju málverk Guðmundar Thoroddsens eru ekki myndir af stöðum, þau eru ekki kyrrstæð heldur á hreyfingu, á leiðinni eitthvað annað. Á þennan hátt eru þau miklu frekar vegvísar um ókönnuð lönd sem listamaðurinn einn ratar um. Á sýningunni SKRIÐUR fáum við að slást með í för.

Listamaður: Guðmundur Thoroddsen

Dagsetning:

06.04.2024 – 19.05.2024

Staðsetning:

Þula

Marshallhúsið, 101 Reykjavík, Iceland

Merki:

MiðborginSýningHjólastólaaðgengi

Opnunartímar:

MánudagurLokað
ÞriðjudagurLokað
Miðvikudagur12:00 - 17:00
Fimmtudagur12:00 - 17:00
Föstudagur12:00 - 17:00
Laugardagur12:00 - 17:00
Sunnudagur14:00 - 17:00

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter, chromo
Dozie, Precious
Perpetual Motion
Islensku myndlistarverdlaunin 2023
Um okkur