Vatnaliljur
Anna Hrund Másdóttir
Litirnir, birtan og síendurteknar speglanir sem einkenna verkin hans Monet hafa undanfarið komið sér rækilega fyrir í huga mér og verið leiðarljós í vinnuferlinu. Þó stærðargráðan sé óljós þá hleypa kunnugleg form og litir áhorfendum inn í heim verksins. Hringlaga silikon skellur - stundum grænar og stundum gular þekja skiltið. Sumar eru dimmar á meðan aðrar eru tærar og þá glittir í lavander og lilla bleika liti undir.
Anna Hrund Másdóttir (f. 1981) vinnur verk í ýmsa miðla, t.a.m. teikningu, vefnað, skúlptúra og innsetningar, en í grunnin eru það litir, form og myndbygging sem hún fæst við. Hún vinnur gjarnan með fjöldaframleidda hluti og endurtekningu. Efniviðurinn er oft notaður eins og hann kemur fyrir en með smávægilegum breytingum og endurtekningu magnast upp töfrar sem búa í verkunum að lokum.
Anna Hrund lærði myndlist við Listaháskóla Íslands, Mountain School of Art og lauk M.F.A námi frá California Institute of the Arts árið 2016. Hún býr og starfar í Reykjavík og er virkur meðlimur í listamannarekna galleríinu Kling & Bang. Anna Hrund hefur sýnt víða, hún hefur haldið einkasýningar í Nýlistasafninu og Listasafni Reykjavíkur og tekið þátt í samsýningum og verkefnum víða um heim. Anna Hrund var tilnefnd til Myndlistarverðlaunanna árið 2022 og hefur hlotið starfslaun og styrki úr ýmsum sjóðum.
Listamaður: Anna Hrund Másdóttir