Yfir strikið
Sigga Björg Sigurðardóttir
Verkið er innsetning og samanstendur af teikningum og litaformum sem unnin eru beint á veggi rýmisins.
Sigga Björg teiknar hömlulaust og leyfir öllu að flæða í óritskoðuðu vinnuferli, þar sem mannleg hegðun, frumstæðar kenndir og tilfinningar birtast í sínu hráasta formi. Listakonan kannar þannig oft á tíðum óljós mörkin milli mennskunnar og hins dýrslega.
Sigga Björg er þekktust fyrir teikningar sínar og skapar innsetningar sem samanstanda af verkum á pappír, veggteikningum, hreyfimyndum og skúlptúrum.
“Línurnar í teikningum Siggu Bjargar eru sjálfbær heimur, svo öruggar að þær hljóta að hellast útúr listakonunni fullmótaðar. Kannski af því að myndefnið fær að elta línuna, hvert sem hún fer eða klessist. Í öryggi þess að treysta ferlinu verður útkoman nákvæmlega sú sem hún átti að verða: furðuskepnan, sokkurinn, froskurinn sem gæti átt heima í kennslubók í líffræði eða hreinlega stokkið út úr teikningunni. Slettan og klessan hafa líka sína tilveru og réttindi. Teikningarnar eru ekki eftirlíkingar raunveruleika, heldur sinn eiginn raunveruleiki..” (´úr sýningarskrá)
Sigga Björg lauk MFA gráðu frá Glasgow School of Art 2004, og hefur síðan sýnt verk sín á einka- og samsýningum víða um heim. Sem dæmi um einkasýningar má nefna Listasafn Reykjavíkur - Ásmundarsafn, Yancey Richardson Gallery New York, Teckningsmuseet í Svíþjóð, Kling og Bang, Hverfisgallerí, og Hafnarborg. Auk þáttöku í samsýningum, meðal annars í Göteborgs Konsthall í Svíþjóð, The Centre For Contemporary Art, Glasgow, National Galleries of Scotland, Edinborg og á Listasafni Íslands. Verk hennar má finna í safneign Listasafns Reykjavíkur, Nordiska Akvarellmuseet í Svíþjóð, Listasafns Íslands, Zabludowicz Art Trust London og Kunsthaus Zürich í Sviss svo eitthvað sé nefnt.
Listamaður: Sigga Björg Sigurðardóttir