Áttamiðun eftir Jayne Wilkinson

17.03.2025

Eitt af því fyrsta sem ég tók eftir þegar ég dvaldi í Reykjavík var breytileiki birtunnar. Hún er aldrei eins og það kom mér á óvart hvernig hún breytist dag frá degi, jafnvel þegar skýjað er. Sólin kom aldrei upp eða settist á sama stað. Stundum var eins og hún hringsólaði bara yfir höfði mér. Mér fannst æ erfiðara að átta mig á því hvað tímanum leið.

Þetta varð til þess að ég fór að velta því fyrir mér hvernig umhverfið mótar skynjun okkar og hið efnislega umhverfi hefur áhrif á það hvernig við áttum okkur. Hvaða áhrif hefur þessi síbreytilega birta á fólk sem býr við hana allt árið, í mörg ár eða heila ævi, heilar kynslóðir? Hvernig er hægt að athafna sig við þessar öfgakenndu aðstæður án þess að tapa áttum, einkum með tilliti til þess að það getur verið stórhættulegt að tapa áttum í íslensku landslagi? Og hvaða áhrif hefur það á listamenn, sem eru sérlega næmir fyrir birtunni í umhverfi okkar, að þurfa stöðugt að endurstilla líkamann gagnvart þessum fyrirbærum—samspili sólarljóssins og halla jarðar—sem annars staðar eru nær óskynjanleg frá mannanna sjónarhorni? 

Í Reykjavík hitti ég marga listamenn sem voru, hver á sinn hátt, að velta fyrir sér spurningum um áttamiðun og rötun, sem og sögum um notkun tækninnar til að miðla umhverfissjónarmiðum. Mörg þeirra voru að vinna að konseptverkum sem fjalla um ástand umhverfisins, án þess þó að vera sett fram í prédikunartón. Það sem tengir verklag þeirra er að öll byggja þau á eigin umhverfisrannsóknum og vinna úr þeim með því að beita abstraksjón eða konseptnálgun, eða hugmyndum um líkamlega nærveru okkar í umhverfinu. Úr því verður fáguð umfjöllun um áskoranir þess að lifa í veröld sem virðist ætíð á barmi glötunar.

Það er satt að náttúran er alfarið óstöðug. Ef við skoðum hugtakið náttúra, þá er það samtíningur af fagurfræðilegu mati og snúnum kenningum sem miðjusetja manninn og skilgreina náttúruna sem „annað“, eða sem eitthvað framandi. Við vitum að í raun og veru hafa athafnir mannfólksins raskað jafnvægi vistkerfa jarðar á óafturkræfan hátt. Það sem hér fer á eftir er afurð af heimsóknum mínum til tveggja íslenskra listamanna sem báðar beita fyrir sig sértækri rannsókn á íslensku landslagi og umhverfi en þróa út frá þeim aðferðir til að skoða og skilja hvernig við mannfólkið staðsetjum okkur innan um og andspænis náttúruöflunum.

Anna Run Tryggvadottir. Hringsolandi nordur. 2023

Anna Rún Tryggvadóttir, Hringsólandi norður, 2023. Ljósmynd: Anna Rún Tryggvadóttir

Anna Rún Tryggvadóttir: Segulmögnuð kakófónía

Segulsvið jarðar er einn sterkasti kraftur náttúrunnar. Það skýlir lífi á jörðinni fyrir hættulegum geislum frá sólinni og utan úr geimnum, svo að mannfólkið hefur þróast með því. Anna Rún Tryggvadóttir hefur lengi verið upptekin við rannsóknir á því segulafli sem járnið í kjarna jarðarinnar myndar. Úrvinnsla hennar birtist í teikningum, innsetningum, gjörningum og vídeóverkum, þar sem hún leggur grunninn að tilurð verkanna, safnar að sér efni og reynir alltaf að rekja þráðinn frá þeim efnivið sem hún fær í hendur. Til þess vinnur hún með vatn, segla, járn, grjót, tré og fleira, í því skyni að sjá hvað verður. Aðferðafræði hennar er næstum klassísk útfærsla á konseptlist: hún býr til þær aðstæður að verkið geti orðið til og leyfir því svo að gerast, án mikillar íhlutunar af hennar hálfu. Hún afsalar sér valdi listamannsins, neitar sér um að sjá fyrir og ráða endanlegri niðurstöðu verksins en þannig leyfir hún hinum ýmsu þáttum verksins að spila saman og hafa áhrif hver á annan.

Nýlegar myndraðir hennar á pappír, sem við kynnum að kalla teikningar í daglegu tali, eru frekar eins og efnislegir gjörningar þar sem hún notar segla, vatn og litarefni úr málmgrjóti, svo að úr verða abstraktmyndir sem líkjast landakortum eða staðfræðiteikningum. Þá færist litarefnið undir áhrifum vatnsflæðisins og segulaflsins. Línur renna saman, blettir birtast eins og fyrir tilviljun, skýrar miðjur myndast og út frá þeim flæði. Allt virðist þetta líkja eftir sjónrænni framsetningu sem hefur þróast samhliða staðsetningar- og siglingafræði, í senn eins og gamalt landakort og nýjar þrívíddarmælingar frá gervihnöttum. Án þess að vísa í raunverulegt landslag vekja þær tilfinningu fyrir ímynduðu landslagi og við áhorfendur getum séð fyrir okkur ferðalag um þessa flæðandi veröld. Þrívíddarsýn verður til þar sem vatn, loft og málmefni mótast af segulsviði og þyngdaraflinu, eins og kortið teikni sig sjálft.

Í öðrum verkum fjallar Anna Rún um sögu segulsviðsins, bæði út frá mannkyns- og jarðsögunni. Í Geymd (2021) og Three Norths (2022) notar hún segulnál úr áttavita til að fjalla um það hvernig segulsvið jarðar hefur breyst í aldanna rás. Í báðum þessum innsetningum má sjá þrjá steina, frá mismunandi skeiðum jarðsögunnar, en yfir þeim hanga segulnálar. Styrkur segulsviðsins og stefna er greypt í grjótið þegar það verður til, enda þótt segulpólarnir hafi færst mikið til síðan hraun byrjuðu að renna (þó lítið eftir að mannfólkið kom til sögunnar) og því vísa segulnálarnar í ýmsar áttir í stað þess að benda í segulnorður eins og það er staðsett núna. Á eins einfaldan hátt og hægt er dregur Anna Rún fram hve flöktandi tilfinning okkar fyrir áttum og staðsetningu getur verið. Þar sem ekki er hægt að treysta skilyrðislaust á höfuðáttirnar—suður, austur, vestur, norður—verður miðun okkar við „norðrið“ alltaf til bráðabirgða, þ.e. ekki varanleg sannindi.

Stutt innskot: seguláttavitinn var fundinn upp á Han-timabilinu í Kína um árið 200 f.o.t. og notaði seguljárnstein sem hráefni. Til að byrja með var hann aðallega notaður við spádóma og var kallaður „suðurbendill“, þar sem það þótti heillavænlegast áttin. Það var ekki fyrr en á elleftu og tólftu öld að farið var að nota áttavita í hernaðarlegum tilgangi og til könnunarleiðangra, bæði á sjó og landi. Þannig varð þessi tækni að endingu nýtt til þess að auðvelda siglingar um heimshöfin í stórum stíl og leiddi í kjölfarið til nýlenduvinninga sem breyttu allri heimsmyndinni. Þá breyttist það sömuleiðis hvernig einstaklingurinn áttaði sig í heiminum. Til að stýra fyrir tíma áttavitans þurfti að taka mið af öllu í umhverfinu en með tilkomu hans varð allt smættað í eina línu, tvo póla með þann sem heldur á áttavitanum mitt á milli.[1]

Anna Run Tryggvadottir. Root Compass, skiss 2024.

Anna Rún Tryggvadóttir: Root Compass, skissa fyrir Margpóla, 2024, Listasafn Íslands.

Anna Rún kannar slíkar hliðranir í áttun okkar nánar á nýjustu sýningu sinni, Margpóla, sem verður opnuð í Listasafni Íslands í apríl á þessu ári. Þar notar hún bæði tilgátur og vísindi til að undirstrika áhrif segulafla á samfélag, stjórnmál og umhverfið. Þá verður þetta stærsta sýningin á verkum hennar til þessa. Býður hún áhorfendum að sjá fyrir sér alla jarðsöguna og ímynda sér öðruvísi jörð, „þar sem segulaflið streymir eins og kakófónía í gegnum hnöttinn“. Sýningin hverfist um stóra innsetningu þar sem láréttar og lóðréttar línur eru dregnar á veggi, loft og gólf, líkt og lengdar- og breiddarbaugar á landakorti. Nema að gráður bauganna og höfuðáttir eru strikaðar út svo að allt rýmið verður að einhvers konar siglingakorti, 360 gráða sjóndeildarhring, sem vekur aftur upp spurningar um áttun í mögulegri framtíð, án nokkurra póla til að miða við. Í öðru verki er rautt reipi sem vísar í hánorður (landfræðilegt norður) en vindur sífellt upp á og ofan af sér, líkt og til að minna á stöðugan snúning jarðarinnar. Í langri röð af teikningum, sem hún vinnur að núna, kannar Anna Rún svo með ýmsum aðferðum hvernig segulsvið jarðar nýtist dýrum til að rata en fjöldamargir vísindamenn eru enn að rannsaka hvernig þessu er farið.

Það er nú talið að á tímabili í 4.500.000.000 ára sögu jarðarinnar hafi mátt finna fleiri segulpóla. Þá benda nýjar kenningar til þess að tvípóla segulsviðið hafi orðið til fyrir um 1.700.000.000 ára.[2] Jafnvel í tvípóla veröld eru segulpólarnir þó ekki stöðugir heldur víxlast þeir á nokkurra hundraða þúsunda ára fresti—en það kallar Anna Rún „lengsta gjörninginn á plánetunni“. Líf þróaðist á jörðinni á meðan segulsviðið var enn á flökti en öll okkar staðsetningar- og siglingartækni þróaðist hins vegar í tvípóla heimi. Ef segulsviðsins nyti ekki við myndu gervihnettir og allt rafrænt samskiptanet okkar því hrynja. Það er eigi að síður vel rannsakað að segulpóllinn er ekki stöðugur en hann er nú á ferðinni um Nunavut-sjálfstjórnarhéraðið í Norðvestur-Kanada, í átt til Síberíu. Nú þegar ótal ógnir steðja að heimskautasvæðum—ofnotkun náttúruauðlinda, bráðnandi jöklar, hækkun yfirborðs sjávar, plastmengun og síaukið magn þrálátra eiturefna í umhverfinu—má jafnvel sjá þetta fyrir sér sem undanhald þessa ósýnilega afls á einu viðkvæmasta landsvæði jarðarinnar.

Hvað myndi það annars hugsanlega þýða að búa í margpóla veröld? Við gætum ímyndað okkur að það mundi riðla þeirri nýlenduhugmynd að norðurálfa sé ráðandi afl á sviði stjórnmála og viðskipta. Hugmyndin um „norðurálfu“ er þá þegar teygjanleg, þar sem hún byggist á mörgum torræðum þáttum, svo sem nýlendusögu, rányrkju og kúgun, andspænis sjálfstjórn frumbyggjaþjóða umhverfis norðurpólinn. Gæti verið að í margpóla veröld leiði þörfin fyrir nýja áttamiðun til þess að við endurhugsum sjálfsmynd okkar og samskiptamáta án þess að miða allt út frá þjóðríkjum og landamærum? Þegar tekið er mið af sjálflægri stöðu—svo sem áttavitar og staðsetningartæki í snjallsímum ganga út frá—vísa allar áttir frá þeim sem er með tækið í hendi sér. En ímyndum okkur eitt augnablik að mannfólk framtíðarinnar muni búa í margpóla veröld sem kalli á allt öðruvísi nálgun við áttamiðun og rötun, byggða á samverkan margra sjónarhorna! Það er vissulega ögrandi hugsun sem ber keim af vísindaskáldskap en þetta gæti þó gert okkur kleift að ímynda okkur sjálfbærari veröld og samfélag sem er ekki eins bundið af tvípóla sýn.

Bryndís Björnsdóttir, Opna úr blámi book, 2022

Bryndís Björnsdóttir: opna úr blámi book, 2022

Bryndís (dísa) Björnsdóttir: Hin óvissa náttúra

Kol, kristallar, saltsteinar, brennisteinn, byssupúður, jarðhitasvæði, sniglar, báxíð—þetta er sértækur listi af efna- og líffræðilegum atriðum, auk iðnaðarvöru, sem speglar margþátta sögu þekkingarleitar okkar í efnisheiminum. Þetta er líka athafnasvæði Bryndísar (dísu) Björnsdóttur. Því hún leitast við að kanna hvernig lífverur, jarðefni og tækniþróun taka smátt og smátt á sig merkingu í samhengi við samfélagsþróun og framgang náttúruvísindanna. Í rannsóknum sínum sviptir hún hulunni af ýmsum tengingum sem spanna tímabil og landsvæði á frumlega og óvænta vegu. Í listrænni framsetningu sinni tekst hún á við það hvernig hugarflug, ímyndun og framtíðarvonir gegnsýra tengingu fólks við söguna. Þá hefur bókaútgáfa skipað mikilvægan sess í sköpunarferli hennar en hún rak í nokkur ár verslunina Útúrdúr sem seldi bókverk listamanna og sérhæfði sig í stafrænum aðferðum til að opna almenningi leið að nýjum hugmyndum, bæði í samhengi við sýningarhald og utan þess.

Mörg af verkum dísu fjalla um stöðu Íslands sem eyju í hnattrænu samhengi, oft með því að tvinna saman rannsóknir á himingeimnum við djúpsjávarrannsóknir. Verkaröðin blámi fjallar til að mynda um áhrif nálægðarinnar við hafið með því að draga fram ýmsar hliðar „blámans“—sem hugtaks, tákns eða tilfinningar. Heildarverkið samanstendur af innsetningum og vídeóverkum en hugmyndirnar eru svo til umfjöllunar í bókverki með sama titli. Við sjáum myndir af bláum leir sem teknar voru í gegnum rafeindasjónauka, þar sem hinar minnstu eindir verða óræðar aflestrar, líkt og skjáskot af ískristöllum eða flöktur í sjónvarpi, en myndunum fylgja stuttir textar með staðreyndum. Myndefnið er klippt saman í hrynjandi sem er í senn truflandi og seiðandi: mengandi efni birtast í samspili við lífverur og líffræðileg ferli; framleiðsla á bláu litarefni (sem uppgötvaðist óvart) opnar á ferli sem hægt er að nota til að framleiða blásýru; blár litur, þ.e.a.s. raunverulega blátt litarefni, sem ekki er hægt að finna í náttúrunni (hafið og himininn eru blár vegna mismunandi áhrifa ljóss); og loks “blue growth” sem er hugtak sem vitnar í ofgnótt síðkapítalismans, þar sem fyrirtæki og hlutafélög sækja í að eignast hlutdeild af ósnertum hafsbotninum þar sem finna má verðmæt hráefni. Lagt saman þá sýnir þetta hvernig hafið býr djúpt í sálarlífi mannkynsins sem myndlíking—sem fjarlægð, þrá, hið óendanlega, óvissa, goðsagnir, leyndardómur, heilsa, áhætta og svo margt annað—en líka hvernig hafið hefur, á þversagnakenndan hátt, minnkað fyrir tilstilli fjarskiptatækni og spálíkana.       
Margar af undirliggjandi hugmyndunum í 
bláma, einkum er varðar samhengi vísindaþróunar, tækninýjunga, nýlendusögu og nútímanýlendustefnu náma- og olíuiðnaðarins, skjóta upp kollinum aftur í IMMUNE/ÓNÆM (2020-2022). Þar er um að ræða samstarfsverkefni sem snerist um að kanna norræn örvistkerfi og miðla þeim upplýsingum í gegnum sýningu, útgáfu og á vefnum. Sjö listamannahópar og listamenn lásu Ferðabók Eggerts og Bjarna og brugðust við henni í framlagi sínu. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson fengu árið 1752 styrk frá danska vísindafélaginu til að ferðast um Ísland og skrifa rit um landhætti og náttúrufar, auk almenns ástands byggðarinnar. Ætla má að dönsk yfirvöld hafi einnig haft áhuga á nýtanlegum auðlindum og málefnum einokunarverslunarinnar. Á þessum tíma leituðust Danir við að loka á samskipti og kaupskap Íslendinga við aðrar þjóðir en þá, líkt og núna, girntust menn auðlindir heimskautasvæðanna og flutningaleiðir lágu eins og stjörnukerfi út frá verslunarborgunum.

Bryndis Bjornsdottir. Image of Vallonia excentrica in a macroscope. 2007. Photo: Þorkell Lindberg Þórarinsson

Bryndís Björnsdóttir: Image of Vallonia excentrica in a macroscope. 2007. Ljósmynd: Þorkell Lindberg Þórarinsson

Verkefnin sem unnin voru á þessum forsendum sýndu ýmis óvænt en djúp tengsl, oft milli fjarlægra staða, sem varða sögu vistkerfa og nýlendusögu, og enn má heyra óminn af þessu í nútímanum. Listamannahópurinn HIGHS—sem er ensk skammstöfun fyrir síldjárnbyssupúðurmannfólk og sykur en hópurinn er leiddur af dansaranum Orlando Whyte frá Jamaíku og sænska listamanninum Rut Karin Zettergren—dregur upp þríhyrningslaga net sem tengir Ísland, Jamaíku og Nýfundnaland út frá saltfiski og akíplómunni en hvort tveggja var nýtt í þrælaversluninni. Salt hafði um aldir verið af skornum skammti á Íslandi og útflutningur á fiski einskorðaðist þess vegna að mestu við skreið. Merkilegt var að „árið 1760 barst konungstilskipun þar sem kveðið er á um að einn maður af erlendum uppruna skuli fara í hverja höfn á Íslandi til að kenna Íslendingum að verka saltfisk á sama hátt og gert var á Nýfundnalandi. Þar átti saltfiskvinnsla uppruna sinn og hafði blómstrað þegar í ljós kom að vöruna var bæði hægt að setja á almennan markað og hafa sem fæðu fyrir þræla.“[3] Þótt ljóst sé að þessi tilskipun sé til að auka söluverðmæti vörunnar, í hugsunarhætti nýlendustefnunnar, er hér líka um að ræða skrýtna hvatningu til að deila þekkingu á milli menningarsvæða. Því hvers lags andófi kynni það að kynda undir þegar atvinnuháttum er breytt þannig með konungsvaldi og miðlun þekkingar utan frá? HIGHS rekja þessa rannsóknarþræði í verkum þar sem þau ímynda sér hvernig sagan hefði getað þróast á róttækari hátt í aðstöðu við nýlenduveldin. Þá taka þau hugmyndir um saltframleiðslu á Íslandi, eins og Eggert og Bjarni vildu koma á, og tengja þær við hugmyndir um mat sem rækta mætti á tilraunastofum í geimförum framtíðarinnar.

Ásamt HIGHS er dísa að þróa nýtt samstarfsverkefni, innblásið af afrófútúrisma og sögu bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA, en ætlun þeirra er að kanna frekar tengslin á milli Íslands, Jamaíku og Grænlands. Verkefnið heitir Contingency Sample (eða Varasýni) og vísar titillinn í tunglgrjótið sem geimfararnir á Apollo 11 rétt náðu að safna í tunglferð sinni árið 1969 (en þjálfun fyrir ferðina fór meðal annars fram á Íslandi). Lýsa má hugmyndinni um varasýni út frá því stílbragði ræðulistarinnar sem kallað er sýnekdóka, þ.e. að láta hluta standa fyrir heild. Hvað myndum við til dæmis, nú á okkar fálmandi tímum, velja sem varasýni af jörðinni? Í verkefninu, sem mun vera til sýnis sumarið 2025 í Verksmiðjunni á Hjalteyri, skoða þau steinefni, meðal annars báxíð, brennistein og járn, sem tengja nýlendusöguna á jörðinni við framtíðaráform um nýlendur í geimnum. Þá eru frásagnir sem tengja hafdjúpin og himingeiminn tilgátukenndar og spennandi en vekja að sama skapi ótta um græðgi og frekari eyðileggingu náttúrunnar með rányrkju, hvort sem er á hafsbotni eða í geimnum. Til grundvallar liggur þó deilan um hugtakið almenning, í þeim skilningi sem orðið þjóðlenda er notað á íslensku: getum við verndað þessi svæði og hvernig yrði framtíðin ef það væri gert? Um hvort tveggja gilda alþjóðalög en þeim lögum er æ oftar ögrað í nafni könnunarverkefna, með aðkomu olíu- og námafyrirtækja, auk lúxusferðabransans.

Það er til athyglisvert orð yfir lífverur sem lifa við mikinn hita, seltu, geislun eða eiturefni: extremophil, sem er blanda af latínu og grísku og útleggja má sem jaðarlífvera á íslensku. Meðal þeirra eru sniglar sem þrífast á brennisteinsríkum hverasvæðum víða um heim, svo sem finna má umhverfis Ísland, nálægt eldstöðvum eða við hverastrýtur á hafsbotninum.[3] Árið 2022 gerði dísa stutt vídeóverk, Sulfur Blaze (eða Brennisteinsloga), þar sem hún kannar áhrif þessa frumefnis. Þar heldur hún ýmsu fram, bæði sönnu og sérviskulegu, um sögu þess og notkun, meðan myndavélin ferðast um botninn á tómum heitum potti. Þannig tengir hún heilandi mátt hveravatnsins og eituráhrif brennisteinsins. Í verkinu er líka stutt tilvitnun í Donnu Haraway— „Við erum öll molta, segir Donna“—og vísar hún þar til fræðimannsins um að við skulum líta á okkur sjálf sem eina á meðal margra tegunda, þannig að allar dýrategundir og allt sem lifir „er lagt undir með öllum hinum“.[5]  Hugmyndir Haraway eiga fylgis að fagna í listheiminum nú á dögum, sem er vel, en það er erfitt að lesa þetta ákall um moltu sem hvatningarorð nú á dögum. Meðalhitastig hækkar á jörðinni ár frá ári, eldar og flóð sem eitt sinn hefðu verið talin til stórtíðinda eru nú daglegt brauð, útrýming alls lífs á jörðinni er hafin. Við erum vissulega molta en það er vandi að sjá hverjar afleiðingarnar af þessari moltumyndun, með öllum eiturefnunum og plastinu um alla jörð, verða í raun og veru—þar sem við þurfum öll á endanum að verða jaðarlífverur til að lifa af.

Skilin milli náttúru og iðnvæðingar verða sífellt óljósari og umræður um rányrkju jarðar móta orðræðu fræðimanna, almenningsálitið og aðgerðir mótmælahreyfinga. Síðasta áratuginn hefur borið á ýmsum hugmyndum um fjöltegundaveröld, nýja efnishyggju innan heimspeki, sem og kenningar um hið tilgátukennda og hið furðulega. Ævinlega er lögð áhersla á það að náttúran og menning séu óaðskiljanleg fyrirbæri og því gæti eitt framlag listanna verið að efla sameiginlega ábyrgð okkar gagnvart jörðinni, jafnvel þótt það gæti þurft fleira til en fagurfræðilega nálgun. Þá ber okkur siðferðisleg skylda til að nálgast öll viðfangsefni á þeirra eigin forsendum, ekki til að sýna þau í fallegu ljósi, heldur til að takast á við þau eins og þau eru. Það krefst þess líka að áhorfandinn gefi hverju smáatriði gaum jafnframt því að hafa vistkerfi alls heimsins í huga.

Greinin birtist í Myndlist á Íslandi, 4.tlb. 2024.

[1] Sæfarar frá Pólýnesíu gátu til dæmis siglt langar leiðir um Kyrrahafið með því að taka mið af stjörnunum, plánetunum og hafstraumum en til þess þurftu þeir að fylgjast sífellt með öllu í kringum sig, eins konar siglingafræði líðandi stundar.

[2] P. E. Driscoll, „Simulating 2 Ga of geodynamo history“, Geophysical Research Letters 43 (2016): doi:10.1002/2016GL068858.

[3] Olando Whyte og Rut Karin Zettergren í IMMUNE/ÓNÆM, ritstj. Bryndís Björnsdóttir (Reykjavík, 2022).

[4] Sjá til dæmis: Jason Daley, „Deep-Sea Snail Builds Its Own Ironclad Suit of Armor. But Even That Can’t Protect It From Ocean Mining“, Smithsonian Magazine, 25. júlí 2019, https://www.smithsonianmag.com/smart-news/deep-sea-snail-iron-shell-first-creature-declared-endangered-ocean-mining-180972727/. Einnig rannsóknir við Kolbeinsey á Íslandi: https://www.nioz.nl/en/blog/niozatsea-iceage-kr-kolbeinsey-ridge-expedition-to-hydrothermal-vents-near-iceland.

[5] Donna J. Haraway, Staying with the Trouble: Making Kin in the Chthulucene (Durham, NC: Duke University Press, 2016).

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5