Háskóli Íslands í samstarfi við Nýjan Landspítala ohf. (NLSH) og Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) bjóða myndlistarmönnum að taka þátt í forvali að lokaðri samkeppni um listaverk í nýbygginu Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands (HVS).
Um er að ræða listaverk innanhúss, utanhúss og á lóð nýbyggingar HVS. Með listaverkum er átt við hvers konar fasta og lausa listmuni, svo sem veggverk unnin beint á veggi, lágmyndir, höggmyndir og aðra listræna fegrun. Sérstaklega er óskað eftir tillögum að listaverkum sem geta verið eiginlegur byggingarhluti, að hluta eða í heild, og órjúfanlegur hluti af byggingunni, inni eða úti. Arkitektar byggingarinnar hafa lagt til möguleg svæði innan hennar fyrir listaverk.
Samkeppnin mun fara fram eftir samkeppnisreglum Sambands íslenskra myndlistarmanna, þ.e. lokuð samkeppni með opnu forvali. Í fyrri áfanga samkeppninnar, forvali, mun forvalsnefnd velja fimm myndlistarmenn og/eða listamannahópa úr innsendum þátttökutilkynningum til þátttöku í seinni hluta samkeppninnar.
Tilkynning um þátttöku skal innihalda nafn/nöfn þátttakenda, kennitölu/-r og netfang/-föng. Stuttan texta þar sem gerð egrein fyrir áhuga á verkefninu ásamt forsendum og hæfni til þess að útfæra varanleg inni og/eða útilistaverk. Ferilsskrá og myndir af fyrri verkum. Rétt til að tilkynna þátttöku í forvali hafa allir myndlistarmenn. Tungumál samkeppninnar er íslenska.
Nánari upplýsingar á www.nlsh.is
Hlekkur á upplýsingar um mögulegar staðsetningar listaverka
Fyrirspurnir í forvalshluta samkeppninnar skal senda á netfangið: trunadur@nlsh.is fyrir 21. febrúar nk.
Umsóknir um þátttöku sendist á netfangið: trunadur@nlsh.is fyrir kl. 16:00, 28. febrúar 2025.