Tilnefningar til Íslensku myndlistarverðlaunanna 2021

28.01.2021
Íslensku myndlistarverðlaunin 2021

Íslensku myndlistarverðlaunin eru veitt í tveimur flokkum: Myndlistarmaður ársins og hvatningarverðlaun ársins. Myndlistarráð stendur nú í fjórða skipti að úthlutun Íslensku myndlistarverðlaunanna en markmiðið er að heiðra íslenska myndlistarmenn, eða myndlistarmenn sem búsettir eru á Íslandi, og vekja athygli á því sem vel er gert jafnframt því að hvetja til nýrrar listsköpunar.

Greint verður frá því hver af þessum fjórum hlýtur Myndlistarverðlaun ársins og hver hlýtur Hvatningarverðlaun ársins fimmtudaginn 25. febrúar 2021.

Myndlistarmaður ársins

 

Alls eru fjórir listamenn tilnefndir í flokknum „Myndlistarmaður ársins“.

Tilnefningar 2021 - Haraldur Jónsson

Haraldur Jónsson

Tilnefningar 2021 - Haraldur Jónsson

Yfirlitsmynd Ljósavél , Haraldur Jónsson. Birt með leyfi listamanns og BERG Contemporary.

Tilnefningar 2021 - Haraldur Jónsson
Tilnefningar 2021 - Haraldur Jónsson

Haraldur Jónsson er tilnefndur til Íslensku myndlistarverðlaunanna 2021 fyrir sýninguna Apertures / Ljósavél í gallerí Berg Contemporary, 19. des. 2020 – 27. feb. 2021. Haraldur Jónsson (f. 1961) setti upp einkasýninguna Ljósavél í sýningarrými gallerí Berg Contemporary síðla árs 2020. Sýningin stendur ein og sér en kallast á við fyrri sýningar listamannsins. Í verkum sínum vinnur hann með margvíslegar skírskotanir sem við nánari athugun reynast vera leiðir til þess að fjalla um sammannleg viðfangsefni á hliðstæðan hátt.

Haraldur Jónsson á að baki langan listferil sem spannar þrjá áratugi og marga miðla en nýverið var haldin yfirgripsmikil yfirlitssýning á Kjarvalsstöðum hvar horft var yfir farin veg. Í sýningunni Ljósavél birtast ný verk þar sem helstu höfundareinkenni listamannsins kjarnast á óvæntan hátt, í senn sem úrvinnsla ferilsins og uppbrot nýrra hugmynda. Úr verður sýning sem er sett fram af miklu sjálfsöryggi. Vitsmunir og skynfæri ljá hlutunum merkingu en ávallt verður eitthvað útundan. Listamaðurinn leitar að manneskjunni og Haraldur Jónsson finnur hana á þessum óræða stað á milli skynfæra og handan þeirra.

Tilnefningar 2021 Margrét Blöndal

Margrét H. Blöndal

Tilnefningar 2021 Margrét Blöndal

Yfirlitsmynd Loftleikur, Margrét H. Blöndal. Birt með leyfi listamanns og i8 Gallerí.

Tilnefningar 2021 Margrét Blöndal
Tilnefningar 2021 Margrét Blöndal

Margrét H. Blöndal er tilnefnd til Íslensku myndlistarverðlaunanna 2021 fyrir sýninguna Aerotics / Loftleikur í i8 Gallerí, 3. sept. – 10. okt. 2020. Margrét H. Blöndal (f. 1970) setti upp markverða einkasýningu Loftleikur í i8 Gallerí á haustmánuðum. Sýningin er áframhald á vinnu Margrétar í gegnum árin, innsetning með skúlptúrum og teikningum þar sem listakonan vinnur með efniviðinn inn í rýmið en samtal verka og rýmis er mikilvægur þáttur í myndlist Margrétar.

Eiginleikar efnisins ráða för í verkunum á sýningunni og skynjun okkar mannvera, næmni fyrir snertingu efnis og rýmis, lita og áferðar. Verkin lifa á skynsviðinu, handan orða, sem þó er hægt setja í orð að hluta til. Sýningin Loftleikur er áhugaverð birtingarmynd listsköpunar Margrétar sem hefur verið að vaxa og dafna í þrjá áratugi í list sinni, ætíð í fullu samræmi við það sem á undan er farið. Ósýnilegur litríkur þráður gengur í gegnum öll hennar verk, allar hennar sýningar. Að þessu sinni tókst hún á við nokkuð hefðbundið sýningarrými, hvíta kassann, með áhugaverðum árangri en rýmið er ætíð hluti af verkum hennar. Margrét á langan sýningarferil að baki, hérlendis og erlendis, og hefur hlotið styrki og viðurkenningar fyrir störf sín.

Íslensku myndlistarverðlaunin 2021 - Olafur og Libia - Ljosmynd: Ari Magg

Libia Castro og Ólafur Ólafsson . Ljósmynd: Ari Magg

Íslensku myndlistarverðlaunin 2021 - Olafur og Libia - I leit ad tofrum - Ljosmynd: Owen Fiene

Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland, Listasafn Reykjavík 3. október 2020 – Austurvöllur Reykjavík. Ljósmynd: Owen Fiene

Tilnefningar 2021 Ólafur Ólafsson og Libia Castro. Ljómsmynd: Owen Fiene
Tilnefningar 2021 Ólafur Ólafsson og Libia Castro. Ljómsmynd: Owen Fiene

Libia Castro og Ólafur Ólafsson eru tilnefnd til Íslensku myndlistarverðlaunin 2021 fyrir verkið Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland í Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhús og á götum úti við Stjórnarráð og Alþingi Íslands, 3. okt. 2020 í samstarfi við tónlistar- og myndlistarhátíðina Cycle og Listahátíð í Reykjavík, Heimar (2020). Sýningarstjórar Guðný Guðmundsdóttir og Sunna Ástþórsdóttir.

Verkið er fjölradda tónlistar- og myndlistargjörningur við hundrað og fjórtán greinar nýrrar stjórnarskrár Íslands sem kosið var um í október 2012 og nær tveir þriðju hlutar samþykktu. Áræðið og úthugsað þátttökuverk sem varpar ljósi á mátt listarinnar og efnir til umræðu um sjálfan grunn samfélagssáttmálans. Aðgerðarsinnar listarinnar kenna okkur að myndlistin á erindi við okkur öll og að ekkert sé myndlistinni óviðkomandi. Listamennirnir eru rannsakendur á samfélag manna, sögulegum skilyrðingum, sjálfsmyndum, þjóðerni, samfélagssáttmálum og afleiðingum slíkra fyrirbæra á hugmyndir okkar og atferli. Ólafur og Libia veita okkur hér innsýn í afurð margra ára vinnu sem á erindi við þegna Íslands og annarra lýðræðisríkja. Ólafur og Libia hafa unnið saman í myndlist sinni frá því árið 1997. Í verkum sínum hafa þau tekist á við þau samfélagslegu, persónulegu, pólitísku og efnahagslegu öfl sem ráða hversdagslegum athöfnum okkar, jafnvel þannig að mörk listar og lífs þurrkast út með virkri þátttöku gesta eða annarra samverkamanna.

Tilnefningar 2021 Selma Hreggvidsdottir, Sirra Sigrun Sigurdardottir

Selma Hreggviðsdóttir og Sirra Sigrún Sigurðardóttir

Tilnefningar 2021 Selma Hreggvidsdottir, Sirra Sigrun Sigurdardottir

Yfirlitsmynd Ljósvaki. Birt með leyfi listamanna og BERG Contemprary.

Tilnefningar 2021 Selma Hreggvidsdottir, Sirra Sigrun Sigurdardottir
Tilnefningar 2021 Selma Hreggvidsdottir, Sirra Sigrun Sigurdardottir

Selma Hreggviðsdóttir og Sirra Sigrún Sigurðardóttir eru tilnefndar til Íslensku myndlistarverðlaunanna 2021 fyrir sýninguna Ljósvaki / Æther í gallerí Berg Contemporary, 24. jan. – 21. mars 2020. Verkin opna fyrir okkur ljóstöfra og furðuveröld bergkristala er finnast í Helgustaðanámu við Eskifjörð. Fyrsta sýning þeirra sem listrænt teymi var á Eskifirði sumarið 2019. Niðurstöður rannsóknarvinnu þeirra, verk og sýningar, vinna þær í sameiningu og eru báðar titlaðar höfundar verkanna. Þær hafa báðar verið ötular við sýningarhald hérlendis sem erlendis utan þessa samstarfs.

Sýning Selmu og Sirru skapar nálægð við annars fjarrænt fyrirbæri, silfurberg. Nákvæmni rannsóknarvinnu þeirra og birtingarmynda hennar í verkum vekja áhuga og forvitni til að kynnast náttúrunni og alheiminum enn betur, um leið og áleitnar spurningar vakna um getu mannsins til að þekkja og tileinka sér lögmál náttúrunnar. Vísindi og listir mætast í rannsókn á efni sem vekur undrun.

Tilnefningar til Hvatningarverðlaunana 2021

Tilnefningar 2021 Andreas Brunner

Andreas Brunner

Tilnefningar 2021 - Andreas Brunner - Ekki brotlent enn

Ekki brotlent enn. Birt með leyfi listamannsins.

Tilnefningar 2021 Andreas Brunner
Tilnefningar 2021 Andreas Brunner

Andreas Brunner er tilnefndur til Hvatningarverðlauna ársins fyrir sýninguna, Ekki brotlent enn, D41, í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, 19. mars – 7. júní 2020. Sýningarstjóri Markús Þór Andrésson. Sýningin, Ekki brotlent enn, í D-sal Hafnarhúss, Listasafns Reykjavíkur er líkust ljóði. Hún lifir með okkur á óræðu sviði fagurfræðilegrar skynjunar og hugsanabrota er leita að haldbærri merkingu er sleppur ætíð undan.

Andreas Brunner (f. 1988) er frá Zürich í Sviss en býr og starfar í Reykjavík. Hann lauk B.A.gráðu í myndlist við Lucerne University of Applied Science and Arts í Luzern í Sviss árið 2016 og stundaði síðar M.A. nám í myndlist við Listaháskóla Íslands, þaðan sem hann útskrifaðist árið 2018.

Andreas hefur verið mjög virkur á sýningarvettvangi hér og landi og erlendis frá því að hann lauk námi í Sviss og tvisvar fengið úthlutað listamannalaunum hér á landi. Í listsköpun sinni endurskoðar hann hugtök og hugmyndir, oft tengd menningarlegri þróun, sköpun merkingar eða skynjun tíma, rýmis og efnis. Því er samhengi verka hans fremur á sviði hugmyndatengsla og skynjunar en ákveðinna birtingarmynda í verkum. Sýningartitillinn, Ekki brotlent enn, vísar til óumflýjanlegar framtíðar, þess sem ekki er en verður.

Tilnefningar 2021 Guðlaug Mía Eyþórsdóttir

Guðlaug Mía Eyþórsdóttir

Tilnefningar 2021 - Guðlaug Mía Eyþórsdóttir - Milli hluta

Yfirlitsmynd Milli hluta. Birt með leyfi listamannsins.

Tilnefningar 2021 Guðlaug Mía Eyþórsdóttir
Tilnefningar 2021 Guðlaug Mía Eyþórsdóttir

Guðlaug Mía Eyþórsdóttir er tilnefnd til Hvatningarverðlauna ársins fyrir sýninguna Milli hluta í Listasal Mosfellsbæjar, 14. sept. – 9. okt. 2020. Sýningin Milli hluta í Listasal Mosfellsbæjar er hrífandi sýning þar sem óvenjulegir skúlptúrar skapa stemmningu sín á milli og vekja forvitni, nánast eins og að þeir leggi fram óleystar ráðgátur á óræðu sviði skynjunar og minninga. Þeir eru kunnulegir og framandi í senn, áferð, efni og fagurfræði úr manngerðu nærumhverfi okkar. Skúlptúrarnir minna á athafnir og nytjahluti heima við, stiga, skáp, hillur, hald, körfu, stól, o.fl. en eru þó eitthvað allt annað og án notagildis. Í sýningarrýminu skapa þessir óræðu hlutir stemmningu hlaðna formrænni fagurfræði og vekja efalítið mismunandi spurningar og enn ólíkari svör.

Merking sýningarinnar, Milli hluta, liggur á milli hluta. Hún gæti þó lifað í formrænum minningum hvers og eins, í daglegum athöfnum. Guðlaug Mína hefur verið virk í listsköpun sinni sem kristallast vel í þessari frumlegu og vönduðu sýningu.

Guðlaug Mía lauk B.A.gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2012 og og stundaði síðar meistaranám í myndlist við Koninklijke Academie í Gent í Belgíu, þaðan sem hún útskrifaðist árið 2018.

Íslensku myndlistarverðlaunin 2021 - Una Bjorg Magnusdottir

Una Björg Magnúsdóttir

Tilnefningar 2021 Una Björg Magnúsdóttir

Yfirlitsmynd Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund. Birt með leyfi listamannsins.

Tilnefningar 2021 Una Björg Magnúsdóttir
Tilnefningar 2021 Una Björg Magnúsdóttir

Una Björg Magnúsdóttir er tilnefnd Hvatningarverðlaun ársins fyrir sýninguna Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund, D40, í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, 16. jan. – 15. mars 2020. Sýningarstóri Aldís Snorradóttir. Una Björg stígur fram á sviðið á áhrifaríkan hátt með sýningu sinni Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund. Titill sýningarinnar er fengin að láni frá sjónhverfingarmanninum David Copperfield, er lét fólk hverfa sporlaust á sviði í Las Vegas. Hið ómögulega gert mögulegt í einni sjónhendingu. Una Björg lauk B.A.-gráðu í myndlist við Listaháskóla Íslands 2014 og stundaði síðar M.A. nám í myndlist við École cantonale d'art de Lausanne í Sviss, þaðan sem hún útskrifaðist 2018. Una Björg hefur verið virk á sýningarvettvangi hérlendis frá því að hún lauk námi, hlotið styrki, listamannalaun og átt frumkvæði að áhugaverðum samsýningum og uppákomum á myndlistarsviðinu. Hún er hluti af sýningarumsjónarteymi gallerísins Kling og Bang í Reykjavík.

Hún vinnur með ýmsa muni og uppstillingar í verkum sínum sem oft á tíðum eru hreyfanleg eða gefa frá sér hljóð. Hið ofur kunnulega birtist oft í innsetningum hennar, skúlptúrískum sviðsetningum og myndverkum, um leið og afbygging á sér stað er ögrar og afhjúpar, skapar nýja upplifun er vekur undrun.

Í ár mun Myndlistarráð einnig veita í fyrsta skipti tvær viðurkenningar; Heiðursviðurkenningu og viðurkenningu fyrir útgefið efni á sviði myndlistar. Heiðursviðurkenning fellur í skaut starfandi myndlistarmanns fyrir heildarframlag hans til íslenskrar myndlistar. Viðurkenning fyrir útgefið efni, hvort heldur sem er í prentuðu eða stafrænu formi, er veitt stofnun, einstaklingi eða fyrirtæki sem staðið hefur að framlagi sem talið er hafa mikilvægt gildi fyrir kynningu og rannsóknir á íslenskri myndlist.

Myndlistarráð tekur ákvörðun um hverjir hljóta viðurkenningar, en í ráðinu situr fulltrúi frá mennta- og menningarráðuneyti, Listasafni Íslands og Listfræðafélagi Íslands ásamt tveimur fulltrúum Sambands íslenskra myndlistarmanna.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Dozie, Precious
Hildigunnur BIRGISDÓTTIR, Approx. 7% (2024), Icelandic Pavilion
ÍMV 2024 handhafar Ljósmynd: Sunday & White
Austurstræti 5