Tilnefningar til Íslensku myndlistarverðlaunanna 2024

28.02.2024

Það er með mikilli gleði og tilhlökkun sem myndlistarráð opinberar tilnefningar til Íslensku myndlistarverðlaunanna árið 2024.

Verðlaunin verða afhent í sjöunda sinn þann 14. mars næstkomandi við mikinn fögnuð í Iðnó.

Markmið verðlaunanna er að heiðra íslenska myndlistarmenn eða myndlistamenn sem búsettir eru á Íslandi og vekja athygli á því sem vel er gert á sviði myndlistar en jafnframt veita einstaka myndlistamönnum mikilvæga viðurkenningu og hvetja til nýrrar listsköpunar.

Myndlistarmaður ársins – tilnefningar 2024

Alls eru fjórir listamenn tilnefndir í flokknum „Myndlistarmaður ársins“ og hlýtur sá sem er hlutskarpastur eina milljón króna í verðlaunafé.

Amanda Riffo MLV 2024

Amanda Riffo

Amanda Riffo: House of Purkinje, 2023. Ljósm. Claudia Hausfeld

Amanda Riffo: House of Purkinje, 2023. Ljósmynd: Claudia Hausfeld

Amanda Riffo fyrir sýninguna House of Purkinje í Nýlistasafninu

Amanda Riffo (f. 1977) er frönsk-sílesk myndlistarkona sem hefur verið búsett í Reykjavík frá árinu 2012. Hún útskrifaðist frá École nationale supérieure des beaux-arts árið 2002 með MA-gráðu í myndlist. Verk hennar hafa verið sýnd í Evrópu, Suður-Ameríku og Japan, þar sem hún dvaldi í vinnustofu listamanna árin 2012 og 2013. Amanda hefur síðan þá verið virkur þátttakandi í íslensku listalífi og hafa einkasýningar hennar verið haldnar í listamannarekna sýningarrýminu Open í Reykjavík, 2018, og í Skaftfelli á Seyðisfirði, 2019, auk þess sem verk hennar hafa verið sýnd á samsýningum, þeirra á meðal á myndlistartvíæringnum Sequences XI í Reykjavík, 2019.

Á sýningu sinni House of Purkinje, sem var sýningarstýrt af Sunnu Ástþórsdóttur, samstillir Amanda ólíkar frásagnir á afar snjallan hátt, allt frá þekkingarfræði (kenningum um skynjun) og ljósfræði, í gegnum eigin reynslu sína af listtengdu bútasaums-hagkerfi til gagnrýnnar skynjunar á samtímalistinni og gangverki þess. Sýning Amöndu endurspeglar ekki aðeins hæfileika hennar til að sameina ólíka þætti í hluti sem eiga sér líkingu eða samsvaranir en eru í senn brenglaðir, heldur er öll sýningin einnig afbökun – sýning á martröð allra listamanna; að geta ekki klárað að setja upp listsýningar sínar á réttum tíma.

Það er sérstaklega verðugt að gefa gaum að kímninni í verkum Amöndu, sem fær þau sem starfa við listirnar til að tárast af hlátri, ásamt áhrifaríkri útfærslu hennar á öllum þáttum sýningarinnar, þar sem hún sviðsetur á sannfærandi hátt hina ófullgerðu myndlistarsýningu.

Það er mat dómnefndar að House of Purkinje sé einstaklega áhugaverð sýning sem virðist í upphafi vera hlé á uppsetningarferli sýningar á meðan hvert smáatriði í glundroða slíkra ferla er listaverk, sem endurspeglar á snjallan hátt vinnusiðferði innan listheimsins og skapar breyttan veruleika þar sem hver hlutur er sviðsett útgáfa af sjálfum sér, rétt eins og á kvikmyndasetti.

Arnar Ásgeirsson

Arnar Ásgeirsson

Arnar Ásgeirsson Hreinsunaraðferðir 2023

Arnar Ásgeirsson: Hreinsunaraðferðir, 2023

Arnar Ásgeirsson fyrir sýninguna Hreinsunaraðferðir í Neskirkju 

Arnar Ásgeirsson (f. 1982) lauk BA-gráðu í myndlist frá Gerrit Rietveld akademíunni í Amsterdam árið 2009 og MA-gráðu í myndlist frá Sandberg Institute í Amsterdam árið 2012. Arnar hefur frá útskrift verið virkur í sýningarhaldi bæði hér heima og erlendis. Hann hefur einnig verið í hópi myndlistarfólks sem staðið hefur að rekstri vinnustofu- og sýningarýmisins Open í Reykjavík. Verk Arnars eru fjölbreytt í efni og aðferðum – skúlptúrar, innsetningar, myndbandsverk og teikningar – þar sem hann tekur þekkt fyrirbæri eða hluti fyrir og setur í nýtt samhengi.

Sýningin Hreinsunaraðferðir er hlaðin marglaga vísunum í listasöguna, frá hátískuíkonum til hversdagslegra hluta eins og klósetthreinsis. Þar mæta birtingarmyndir hins fullkomna karlmannslíkama boðskap kirkjunnar um hreinsun og aflausn. Sýningin er hugsuð á nákvæman hátt inn í samhengi sýningarstaðarins, safnaðarheimilis Neskirkju. Hugmyndin að baki hennar er eimuð niður í níu skúlptúra, flöskur sem eru samtímis kunnuglegar og framandi bræðingur efna, lita og forma. Hver skúlptúr er lítil plastflaska í formi karlmannsstytta Forngrikkja og Rómverja, táknmynd hins fullkomna, kraftmikla líkama sem er í senn laskaður, mótaður í efni nútímans, plast. Litasamsetning hvers og eins skúlptúrs er einkennandi fyrir ákveðnar vörur. Kunnuglegar, heimilislegar vörur sem við þekkjum vel án frekari vísana í ákveðin vörumerki. Glær flaska með rauðum tappa og grasgrænum vökva. Merking verksins liggur kannski ekki síst í innihaldi flasknanna, sápunni sem hreinsar. Hvaða óhreinindi eru það sem þarf að ráðast til atlögu við? Hvað þarf til að hreinsa burt það sem mengar og eitrar?

Það er mat dómnefndar að í sýningunni Hreinsunaraðferðir takist Arnari á einstakan hátt að sameina vísanir og merkingu úr ólíkum áttum á óvæntan og klókan hátt og kjarna samtal samtíma okkar um staðalímyndir og hugmyndir sem krefjast endurskoðunar.

Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar. Ljósmynd: Rut Sigurðardóttir

Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar. Ljósmynd: Rut Sigurðardóttir

Geirþrúður Finnbogadóttir Vísitala 2023

Geirþrúður Finnbogadóttir: Vísitala, 2023

Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar fyrir sýninguna Vísitala í Ásmundarsal

Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar (f. 1977) lauk námi í Rijksakademie van beeldende kunsten í Amsterdam árið 2008. Hún útskrifaðist með MFA-gráðu í myndlist við Konsthögskolan í Malmö árið 2005 og með BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2002. Hún býr og starfar í Reykjavík og hefur sýnt á opinberum vettvangi jafnt hérlendis og erlendis.

Sýningin Vísitala hverfðist um fjármálaumhverfið og fagurfræði þess og á henni sýndi Geirþrúður tvívíð og þrívíð verk er vísa í útliti, efnis- og litanotkun til myndmáls sem gjarnan var notað á níunda áratug síðustu aldar í hönnun og framsetningu tölulegra skýringarmynda hagfræðinnar. Listsköpun Geirþrúðar, á þessari sýningu og öðrum nýlegum, gengur út frá því að skapa sterkan samfélagslega gagnrýnan undirtón sem hún nýtir til vangaveltna um úrlestur og tengsl milli hugmyndakerfa og hluta, sem og þeirra táknfræðilegu þátta er skapa umgjörð um upplifanir okkar af þeim ósýnilegu kerfum er mynda meginbyggingarefni daglegrar tilveru okkar. Skúlptúrar sýningarinnar voru gerðir úr köldum málmi, plastefnum og gleri, formuðum af vélum en ekki af mannshöndinni. Tengja mátti efnivið þeirra og form við móderníska list 20. aldarinnar og jafnframt mátti lesa úr þeim að form þeirra ættu í samtali við sögu sýningarsalarins, Ásmundarsalar, og arfleifð Ásmundar Sveinssonar sem þar byggði sér hús og vann.

Það er mat dómnefndar að með sýningunni Vísitölu takist Geirþrúði með einstökum tengingum sínum milli þekkts myndmáls og fagurfræðilegra útgangspunkta, auk áleitinna spurninga um víðtæka merkingu hlutanna í kringum okkur, að skapa sér sitt eigið, sem á sér sérstöðu í íslensku listalífi.

Ólöf Nordal. Ljósmynd: Arnþór Birgisson

Ólöf Nordal. Ljósmynd: Arnþór Birgisson

Ólöf Nordal: FYGLI, 2023. Ljósmynd: Vigfús Birgisson

Ólöf Nordal: FYGLI, 2023. Ljósmynd: Vigfús Birgisson

Ólöf Nordal fyrir sýninguna FYGLI í Ásmundarsal

Ólöf Nordal (f. 1961) stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1981-85, Gerrit Rietveld akademíuna í Hollandi 1985 og hlaut MA-gráðu frá Cranbrook Academy of Art, Michigan, 1989-91 og MFA-gráðu frá höggmyndadeild Yale-háskóla 1991-93. Ólöf á að baki veigamikinn feril og hafa verk hennar verið sýnd víðs vegar um heiminn og í helstu listasöfnum og sýningarstöðum hér á landi. Verk hennar í almenningsrými hafa ekki einungis vakið eftirtekt heldur umbreytt ásýnd og stöðu höggmyndalistar í almenningsrými samtímans hér á landi.

Þjóðsögulegar hefðir og menningararfur íslensku þjóðarinnar eru endurtekin stef í verkum Ólafar. Þau eru umlykjandi sýninguna Fygli en á sama tíma fær skáldskapurinn og listrænt frelsi höfundarins mikið pláss. Skúlptúrarnir eru fjórir á sýningunni, steyptir í brons og sitja nokkuð hátt á stöplum í sýningarsalnum. Fígúrurnar eru einhvers konar blendingar mannfólks og fugla, líkt og sýningartitillinn gefur til kynna. Þær eru kunnuglegar en jafnframt framandi, sitja feimnar en á ákveðin hátt keikar, lágstemmdar en á sama tíma íburðarmiklar. Þessi togstreita í sýningunni er lýsandi fyrir kjarnann í verkum Ólafar, þar sem spegli er haldið upp við þjóðarminni og frásagnarhefð fortíðarinnar. Verkið er í samtali við nýlegt verk Ólafar sem ber heitið Mannfuglar (2022) og er staðsett í garði hjúkrunarheimilisins Móbergs á Selfossi. Á sýningunni er dreginn upp mikill leikur í textaverki sýningarinnar sem tekur á móti áhorfandanum, þar sem vísað er til fyglis sem „tístir rugl og rogl“. Fígúrunum fjórum á sýningunni eru gefnar raddir með hljóðverki sem ómar um salinn. Hljóðin eru eins og skúlptúrarnir sjálfir hvoru tveggja mannlegir og dýrslegir.

Það er mat dómnefndar að sýningin Fygli endurspegli kraftmikið vald Ólafar á skúlptúrnum og að í fjórþættri innsetningu hennar skapist sterk frásögn, áhrifamikil upplifun sem færir áhorfendur inn á óskilgreint svæði hins viðkvæma og í senn gróteska í náttúrunni, tengslum mannsins við hana og eigið ímyndunarafl.

Hvatningarverðlaun – tilnefningar 2024

Þrír upprennandi myndlistarmenn eru tilnefndir til hvatningarverðlauna og hlýtur sá sem vinnur 500 þúsund krónur í verðlaunafé.

Almar Steinn Atlason. Ljósmynd Snæbjörn Brynjarsson

Almar Steinn Atlason. Ljósmynd: Snæbjörn Brynjarsson

Almar Steinn Atlason: Almar í tjaldinu, 2023.

Almar Steinn Atlason: Almar í tjaldinu, 2023.

Almar Steinn Atlason fyrir sýninguna Almar í tjaldinu í Listasafni Svavars Guðnasonar á Höfn í Hornafirði

Almar Steinn Atlason (f.1992) útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2018. Hann fangaði athygli almennings með eftirminnilegum gjörningi strax í fyrsta áfanga námsins með gjörningnum Almar í kassanum veturinn 2015. Þar dvaldi hann nakinn lokaður inni í glerkassa í viku í beinu streymi á internetinu. Gjörningurinn setti tóninn fyrir áframhaldandi listsköpun Almars sem vinnur í fjölbreytta miðla og aðferðir. Verk Almars varpa gjarnan upp spurningum um hlutverk og ímynd listamannsins og hvað geti talist list eða hvar listin geti átt sér stað.

Gjörningurinn og sýningin Almar í tjaldinu fór fram síðsumars í Listasafni Svavars Guðnasonar á Höfn í Hornafirði þar sem listamaðurinn fetaði í fótspor Ásgríms Jónssonar, listmálara. Árið 1912 sigldi Ásgrímur með skipi til Hornafjarðar og dvaldi þar í einn mánuð í tjaldi uppi á hól á Hrossabithaga og málaði vatnslitamyndir. Rúmum hundrað árum síðar endurtekur Almar leikinn og staðsetur sig á sama stað en í breyttu umhverfi. Þar sem áður var hagi með útsýni til allra átta er nú golfbraut og útivistarsvæði vaxið trjám inni í miðjum bæjarkjarna Hafnar. Almar dvaldi í tjaldinu í mánuð og málaði bæði nærumhverfi tjaldsins og náttúru Hornafjarðar og skrásetti í tugum málverka sömu staði eins og þeir blasa við okkur í samtímanum. Á sýningunni í Listasafni Svavars Guðnasonar voru málverk Almars sýnd í samhengi við verk annarra hornfirskra listamanna sem sumir hverjir urðu fyrir áhrifum af heimsókn Ásgríms á sínum tíma.

Það er mat dómnefndar að Almari takist á kíminn en sannfærandi hátt að ávarpa í gjörningnum og sýningunni Almar í tjaldinu ekki aðeins íslenska listasögu heldur einnig staðbundna sögu Hornafjarðar bæði hvað varðar mannlíf og náttúru, sem þýðist yfir í víðara samhengi samtímans.

Brák Jónsdóttir. Ljósmynda: Þórir Hermann Óskarsson

Brák Jónsdóttir. Ljósmynda: Þórir Hermann Óskarsson

Brák Jónsdóttir. Possible Oddkon 2023

Brák Jónsdóttir: Possible Oddkin, 2023

Brák Jónsdóttir fyrir sýninguna Möguleg æxlun í Gróðurhúsi Norræna hússins í Reykjavík

Brák Jónsdóttir (f. 1996) útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2021. Frá útskrift hefur hún átt frumkvæði að ýmsum myndlistarverkefnum og hefur sýnt töluvert í listasöfnum, listahátíðum og sýningarrýmum jafnt heima og heiman.

Á sýningunni Möguleg æxlun í Gróðurhúsi Norræna hússins í Reykjavík mátti sjá skúlptúra sem unnir voru í náttúruleg jarðefni, trjábörk og ál. Í verkunum og texta sýningarstjóra má skynja húmor en jafnframt vangaveltur af alvarlegri toga um tengsl líkama, sálar og umhverfis. Staðsetning verkanna, í gróðurhúsi Norræna hússins, leikur jafnframt stórt hlutverk í innsetningu Brákar og vísar hún með staðsetningunni á beinan hátt til manngerðra aðstæðna sem skapa kjöraðstæður til sáningar, næringar, aðhlynningar og vaxtar. Í texta sýningarstjórans, Oddu Júlíu Snorradóttur, um sýninguna er vísað til þess að eitthvað furðulegt eigi sér hér stað, einhvers konar verðandi ástand nokkurra vera sem ekki er ljóst hvernig muni líta út við fullvöxt. Í þeirri óvissu og millibilsástandi felast möguleikar skúlptúra Brákar og æ skýrara myndmál listsköpunar hennar. Í þeim mætir verðandin hinu forna en tengiefnið er gjarnan líkamleg nálgun Brákar við skúlptúra sína, þar sem gjörningar hennar eiga sér gjarnan stað í snertingu hennar á – og nokkurs konar dansi við – skúlptúra sína.

Það er mat dómnefndar að skúlptúrar Brákar og gjörningatengsl hennar við marga þeirra slái áhugaverðan tón í myndlistinni og að í þeim kjarnist margar af mikilvægari spurningum samtímans um tengsl manns og náttúru, vaxtarferli og hlut ímyndunaraflsins í sköpun veruleikans á jaðri hins mögulega og ómögulega.

Sara Björg Bjarnadóttir. Ljósmynd: Snorri Bros

Sara Björg Bjarnadóttir. Ljósmynd: Snorri Bros

Sara Björg Bjarnadóttir: Tvær eilífðir á milli 1 og 3 Ljósmynd: Daníel Starrason

Sara Björg Bjarnadóttir: Tvær eilífðir á milli 1 og 3 Ljósmynd: Daníel Starrason

Sara Björg Bjarnadóttir fyrir sýninguna Tvær eilífðir á milli 1 og 3 í Listasafninu á Akureyri

Sara Björg Bjarnadóttir (f. 1988) útskrifaðist með BA-gráðu frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2015. Hún hefur allt frá útskrift verið virk í sýningarhaldi hér á landi ásamt því að hafa tekið þátt í samsýningum í Berlín, Vilníus, Los Angeles, Aþenu og London.

Á einkasýningu sinni Tvær eilífðir á milli 1 og 3 í Listasafni Akureyrar skapar Sara Björg nokkuð óhugnanlegt rými sem virðist vera til handan tíma, rúms og veruleika. Með afgerandi ákvörðunum, svo sem að loka hefðbundnum inngangi sýningarrýmisins og leika sér með litatóna og lýsingu rýmisins, skapar hún millisvæði sem minnir á líkamlegar tengingar vökva. Verkin eru fíngerð og virðast unnin af mikilli nákvæmni og á sýningunni má einnig sjá hugleiðslu-myndbandsverk sem minna á vinsæl myndbönd samfélagsmiðlanna. Þessi verk féllu vel að rýminu og sköpuðu yfirgripsmikla upplifun af einhverju sem ekki er hægt að lýsa en felur samt í sér það sem nefnt var í dularfullum lýsingum á sýningunni: spegilmynd takmarkalausrar sjálfsskoðunar, vatnskenndra tengsla líkama, rýma, tilfinninga og aðstæðna sem allar forðast endanlegar og áþreifanlegar lýsingar. Sara Björg brýtur upp hefðbundna líkamlega upplifun áhorfandans af því að vera í sýningarrýminu og beitir afmörkunum, óhefðbundnu efni og formum í bland við náttúruvísanir til þess að skapa sérstaka tengingu við rýmið.

Það er mat dómnefndar að sýning Söru Bjargar kanni samspil líkamlegra hvata og hins gagnrýna huga á áhugaverðan hátt. Tilfinning hennar fyrir formum og efni sem og tengsl hennar við staðbundna sérstöðu rýmis endurspeglist sterklega í, að hluta til, gagnvirkum innsetningum hennar.

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter, chromo
Dozie, Precious
Perpetual Motion
Islensku myndlistarverdlaunin 2023
Um okkur