Nokkur nýleg verk – ný aðföng í safneign

Anna Guðjónsdóttir, Borghildur Óskarsdóttir, Carl Boutard, Guðmundur Thoroddsen, Guðrún Einarsdóttir, Gústav Geir Bollason, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Karin Sander, Katrín Sigurðardóttir, Kristín Morthens, Kristján Steingrímur Jónsson, Pétur Magnússon

Nokkur nýleg

Á sýningunni má sjá úrval verka sem Listasafn Íslands hefur, samkvæmt tillögum innkaupanefndar safnsins, keypt á undanförnum fjórum árum. Hugmyndin með sýningu á nýjum aðföngum í safneigninni er sú að varpa ljósi á mikilvægan þátt í starfsemi safnsins og á þær áherslur sem endurspeglast í innkaupum hverju sinni. 

Á sýninguna hafa verið valin verk eftir 12 listamenn sem fjalla með ýmsum hætti um tengsl manns og náttúru, auk þess að gefa góða mynd af ólíkum sjónarhornum, aðferðum og efnistökum í listsköpun samtímans. Verkin á sýningunni birta sjónarhorn sem mótað er af mannlegri reynslu og viðhorfum, eða eins og Anna Guðjónsdóttir orðar það í tengslum við landslagshefð í málaralist: „Fyrir mér er landslag skapað af manneskjunni, sem sagt náttúra höfð á þann veg sem við viljum hafa hana, sjá hana, nota hana.“ Verk hennar byggir á æskuminningum frá Þingvöllum, miðlægum stað í þjóðarvitundinni. Staðir og minningar sem þeim tengjast mynda raunar leiðarstef á sýningunni, hvort sem um ræðir Þingvelli, Þjórsá, Dyrfjöll, Heklu eða Mosfellssveit, smágerða náttúruheima, erlenda almenningsgarða eða heilu heimsálfurnar. Myndverkin geta einnig birt áhorfandanum táknræna, ímyndaða eða huglæga staði, þótt þeir finnist ekki á landakortum. 

Í endursköpun sinni á stöðum hafa listamennirnir ýmist mótað áferð þeirra og lögun í leir eða önnur efni, fangað ásýnd þeirra í málverk, vefnað, á filmu eða í stafrænan miðil, eða jafnvel hnikað vettvanginum til með því að taka úr honum sýnishorn. Í öllum tilvikum hefur átt sér stað einhvers konar umbreyting sem gefur til kynna hið menningarlega sjónarhorn eða afmörkun listamannsins. Verkin eiga það sameiginlegt að vekja okkur til vitundar um tengsl menningar og náttúru, oft með gagnrýnum undirtónum sem tengjast verndunarsjónarmiðum og endurmati á stöðu mannsins á viðsjárverðum tímum í kjölfar iðnvæðingar, ofnýtingar og ágangs gagnvart jörðinni. Með verkum sínum varpa listamennirnir fram grundvallarspurningum: Hvaðan komum við? Hvert stefnum við? Hvaða ábyrgð berum við á umhverfi okkar og náttúrunni?

Listamenn: Anna Guðjónsdóttir, Borghildur Óskarsdóttir, Carl Boutard, Guðmundur Thoroddsen, Guðrún Einarsdóttir, Gústav Geir Bollason, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Karin Sander, Katrín Sigurðardóttir, Kristín Morthens, Kristján Steingrímur Jónsson, Pétur Magnússon

Sýningarstjórar: Anna Jóhannsdóttir, Vigdís Rún Jónsdóttir

Dagsetning:

09.09.2023 – 25.02.2024

Staðsetning:

Listasafn Íslands

Fríkirkjuvegur 7, 101 Reykjavík, Iceland

Merki:

MiðborginSýningHjólastólaaðgengi

Opnunartímar:

Opið alla daga: 10:00 – 17:00

Fimmtudaginn langi: 10:00 – 22:00

Fylgið okkur á Facebook og Instagram

Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter, chromo
Dozie, Precious
Perpetual Motion
Islensku myndlistarverdlaunin 2023
Um okkur