Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar og Künstlerhaus Bethanien eiga í samstarfi um vinnustofudvöl íslenskra myndlistarlistamanna í Berlín til fimm ára eða frá 2020-2025. Hver dvöl spannar eitt ár.
Listamenn
Styrmir Örn Guðmundsson (f.1984) er maður frásagna og gjörninga auk þess sem hann syngur, býr til hluti og teiknar. Hann laðast að hinu fjarstæðukennda að því leytinu til að hann hefur ástríðu sem jaðrar við þráhyggju fyrir hinu fáránlega, bjánalega eða skrítna, en á sama tíma hefur hann blítt og hugulsamt viðhorf gagnvart því: hann hugsar vel um hið fjarstæðukennda, hann hjálpar því að þroskast, hann gefur því rými þar sem það getur bæði orkað stuðandi og þægilegt. Styrmir býr í Berlín.
Elin Hansdóttir Elín Hansdóttir stundaði nám við myndlistadeild Listaháskóla Íslands og lauk síðar MA gráðu frá KBH-Weissense í Berlín. Elín hefur sýnt víða, þar ber helst að nefna KW – Institute for Contempary Art í Berlín, Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, i8 gallerí, Den Frie í Kaupmannahöfn og á tvíæringnum í Marrakesh. Verk Elínar byggja á skynjun manneskjunnar og upplifun hennar á umhverfi sínu. Hún notast við ýmsar aðferðir til þessa svo sem inngrip í arkitektúr eða ljósmyndir.
Anna Júlía Friðbjörnsdóttir (f. 1973) býr og starfar í Reykjavík. Hún vinnur þvert á miðla og skoðar mengið á milli vísinda og menningar í verkum sem taka mið af samtíma og sögulegum málefnum. Hún lauk MA gráðu frá Manchester School of Arts, Manchester Metropolitan University, 2004 og BA Fine Art gráðu frá London Guildhall University 1998. Áður stundaði hún nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1993-95. Anna Júlía starfaði sem verkefna- og sýningarstjóri í i8 gallerí 2008-2015 og var meðstofnandi og ritstjóri myndlistartímaritsins Sjónauka sem var gefið út á árunum 2007-2009. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið fjórar einkasýningar á Íslandi en hún var tilnefnd til Íslensku myndlistarverðlaunanna 2018 fyrir sýninguna Erindi í Hafnarborg. Um þessar mundir á hún verk á sýningunni Iðavöllur í Listasafni Reykjavíkur.